Slitabú Landsbankans fékk í gær undanþágu frá Seðlabanka Íslands frá fjármagnshöftum. Að henni fenginni fór fram fullnaðaruppgjör eftirstöðva samþykktra forgangskrafna, sem að mestu eru til komnar vegna Icesave-reikninganna svokallaðra, í bú bankans. Alls var um að ræða 210,6 milljarða króna sem átti eftir að greiða inn á Icesave-kröfuna. Frá þessu er greint í frétt á heimasíðu slitabús Landsbankans.
Forgangskröfur í bú Landsbankans námu alls 1.328 milljörðum króna. Þorri þeirra var vegna Icesave-reikninganna svokölluðu og stærsti forgangskröfuhafinn var breski innstæðutryggingasjóðurinn sem greiddi tryggingu til þeirra Breta sem geymdu fé á reikningunum.
Icesave-reikningarnir voru netreikningar sem bankinn bauð upp á í Hollandi og Bretlandi sem báru mun hærri innlánsvexti en aðrir voru að bjóða upp á. Því flykktust viðskiptavinir til Landsbankans vegna þeirra, enda ávöxtun á fé mun hærri þar en annarsstaðar.
Þessi mikla aðsókn leiddi til þess að Icesave-innlánssöfnunin varð að risavaxinni alþjóðadeilu þegar ljóst var að hinn gjaldþrota Landsbanki gat ekki greitt innstæðueigendum eignir sínar strax eftir bankahrun. Innstæðutryggingasjóðir landanna tveggja greiddu hluta innstæðanna til baka og við það eignuðust þeir kröfu á Landsbankann.
Alls voru gerðir þrír Icesave-samningar milli íslenskra stjórnvalda annars vegar og Hollendinga og Breta hins vegar. Tveir þeirra fóru í þjóðaratkvæðagreiðslu eftir að Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands, neitaði að skrifa undir lögin. Ef síðustu samningarnir, sem kenndir voru við aðalsamningamanninn Lee Buchheit, hefðu verið samþykktir hefðu heildargreiðslur ríkissjóðs vegna þeirra numið alls um 67 milljörðum króna, samkvæmt úttekt Hersis Sigurgeirssonar, dósents í fjármálum við viðskiptafræðideild Háskóla Íslands.
Icesave-málið fór á endanum fyrir EFTA dómstólinn þar sem Ísland var sýknað af kröfum Breta og Hollendinga í upphafi árs 2013.