Landsbankinn gæti greitt núverandi eigendum sínum, sem að stærstu leyti er íslenska ríkið, 63,3 milljarða króna í arðgreiðslur. Svigrúm til argreiðslu í peningum eða til kaupa á eigin bréfum er nú þegar 18,9 milljarðar króna ef sú greiðsla færi fram með lausu fé eða ríkisskuldabréfum. Ef bankinn fjármagnaði slíkar útgreiðslur með öðrum hætti, eins og sölu eigna eða útgáfu skuldabréfa, gæti svigrúmið numið 63,3 milljörðum króna.
Þetta kemur fram í nýrri stöðuskýrslu Bankasýslu ríkisins þar sem fjallað er um fyrirhugað söluferli á 28,2 prósent hlut í Landsbankanum. Samkvæmt mati Bankasýslunnar eru öll skilyrði til staðar til að hefja söluferlið og ætti því að ljúka á síðari hluta þessa árs.
Þess má geta að greining Bankasýslunnar á svigrúmi Landsbankans til að greiða út arð tekur ekki tillit til nýrrar endurfjármögnunar Landsbankans, til mögulegra áhrifa nauðasamnings gamla Landsbankans á bankann og nýlegra breytinga á bindiskyldu Seðlabanka Íslands.
Ríkið fengið 53,1 milljarð í arð
Ríkið, sem á 98,2 prósent hlut í Landsbankanum, hefur þegar fengið 53,1 milljarða króna í arðgreiðslu frá Landsbankanum frá því að hann hóf fyrst að greiða arð árið 2014. Ríkið hefur því þegar endurheimt 43,5 prósent þeirra 122 milljarða króna sem það lagði bankanum upprunalega til í fjárframlag við stofnun.
Alls hafa arðgreiðslur numið 54,2 milljörðum króna. Það sem út af stendur hefur runnið til annarra eigenda Landsbankans. Fyrrum og núverandi starfsmenn Landsbankans eiga 0,78 prósent hlut í Landsbankanum sem þeirfengu afhenta í samræmi við samning LBI hf., fjármálaráðherra og Landsbankans frá 15. desember 2009. Arðgreiðslur vegna þessarar hlutabréfaeignar starfsmanna hafa á undanförnum árum numið samtals 423 milljónum, samkvæmt upplýsingum frá Landsbankanum. Það sem út af stendur, alls rúmlega eitt prósent hlutur, skiptist á milli Landsbankans, sem á 0,91 prósent í sjálfum sér, og fyrrum stofnfjáreigenda í sparisjóðum sem hafa sameinast Landsbankanum (0,11 prósent).
Í skýrslunni segir einnig að Bankasýslan hafi rætt þann möguleika við Landsbankann að kynna til sögunnar ársfjórðungslegar arðgreiðslur í stað einnar á hverju ári. Ekkert í lögum sem gilda um bankann girða fyrir slíkt fyrirkomulag. „Yrði þá gert ráð fyrir að aðalfundur bankans samþykkti heildararðgreiðslu til hluthafa vegna hagnaðar fyrra árs en í stað eingreiðslu yrði arðurinn greiddur með fjórum jöfnum greiðslum ársfjórðungslega fram að næsta aðalfundi. Slíku fyrirkomulagi fylgja margir kostir. Í fyrsta lagi gæti bankinnn tryggt sér ákveðna sérstöðu sem arðgreiðslufélag á meðal skráðra fyrirtækja á innlendum markaði ef arðgreiðslur (óháð fjárhæð) væru inntar af hendi fjórum sinnum í stað einu sinni á ári eins og almennt er á Íslandi. Í öðru lagi gæti lausafjárstýring bankans batnað með þessu fyrirkomulagi. Í þriðja lagi fellur þetta fyrirkomulag vel að þeim áherslubreytingum orðið hafa í lögum nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki varðandi eiginfjárauka og verndun eigin fjárs fjármálafyrirtækja.“