Megináherslu þingsályktunartillögunnar sem ríkisstjórnin lofaði um orkuskipti í samgöngum hefur verið breytt þannig að nú fjallar hún almennt um orkuskipti á Íslandi. Jafnframt er ekki lengur horft til ársins 2020; næstu fimm ára, heldur til ársins 2030. Verið er að undirbúa þingsályktunartillöguna í atvinnu- og nýsköpunarráðuneytinu ásamt aðilum frá Grænu orkunni, verkefnis um vistorku í samgöngum. Enn er stefnt að því að tillagan verði lögð fyrir vorþing sem hefst í næstu viku, 19. janúar.
Í fyrsta kafla sóknaráætlunar ríkisstjórnarinnar í loftslagsmálum er fjallað um hvernig draga á úr losun gróðurhúsalofttegunda í samgöngum og iðnaði á Íslandi. Þar er tiltekið markmið um orkuskipti í samgöngum og aðgerðaráætlun „til næstu ára vegna orkuskipta, jafnt á landi sem á hafi“ sem leggja á fram á vorþingi sem þingsályktun. Markmið íslenskra stjórnvalda er að hlutfall endurnýjanlegra orkugjafa í samgöngum verði orðið 10 prósent árið 2020.
Samkvæmt upplýsingum úr atvinnu- og nýsköpunarráðuneytinu er enn stefnt að markmiðum sóknaráætlunarinnar, jafnvel þó horft sé til 15 ára en ekki fimm. Það sé ekki vegna þess að það sé of dýrt að ná þessum markmiðum fram fyrir árið 2020 heldur er aðeins verið að reyna að horfa til lengri tíma.
Auk þess að aðilar grænu orkunnar vinni með ráðuneytinu að þessari þingsályktun hefur Orkusetur, Orkustofnun og Hafið - öndvegissetur haft vinnuna til umsagnar og verið til ráðgjafar.
Ólíkt því sem segir í sóknaráætlun ríkisstjórnarinnar í loftslagsmálum þá mun þingsályktunin fjalla um flugsamgöngur auk samganga á láði og legi. Þórir Hrafnsson, upplýsingafulltrúi í atvinnu- og nýsköpunarráðuneytinu, bendir á að þróun vistvænna orkugjafa sé lengra komin í samgöngum á jörðu niðri. Ekki hafi enn verið stofnað til samstarfs um orkuskipti í flugsamgöngum á Íslandi.
Iðnaðarráðherra stofnaði til verkefnisins Grænu orkunnar árið 2010 og er tilgangur þess að stuðla að markmissri stefnumótun um orkuskipti í samgöngum á Íslandi. Aðilar að verkefninu eru margir af helstu áhrifavöldum í samgöngum á Íslandi, þar á meðal bílaumboðin, olíufyrirtækin og flutningafyrirtæki auk ráðuneyta, háskólanna og sprotafyrirtækja um umhverfisvænar lausnir í samgöngum. Græna orkan er lykilgerandi í sóknaráætlun ríkisstjórnarinnar í loftslagsmálum sem kynnt var í lok nóvember. Sóknaráætlunin er einskonar áhersluplagg í stefnumótun stjórnvalda í aðgerðum til að varna frekari loftslagsbreytingum.
Ásamt því að stefnt sé að því að hverfa frá brennslu jarðefnaeldsneytis í samgöngum á Íslandi er lögð áhers á eflingu innviða fyrir rafbíla á landsvísu. Til að ná þessu fram er ljóst að nokkur innviðauppbygging þarf að fara fram. Bæði þarf að veita rafmagni til hleðslustöðvanna sem reisa á víða um land og leggja línur í vinnslustöðva útgerðanna sem vilja geta veitt rafmagni úr landi um borð í skip sem liggja við bryggju og til vinnslustöðva sem sumar brenna enn jarðefnaeldsneyti til orkugjafar.
Sóknaráætlunin var kynnt áður en samninganefnd Íslands hélt til Parísar á loftslagsráðstefnu Sameinuðu þjóðanna þar sem samþykkt var samkomulag um loftslagsmál. Stefnt er að því að undirrita samkomulagið formlega í höfuðstöðvum Sameinuðu þjóðanna í New York 22. apríl. Ísland samdi með Evrópusambandinu á ráðstefnunni í París. Endanlegar skuldbindingar Íslands vegna samkomulagsins munu ekki liggja fyrir fyrr en samið hefur verið við ríki Evrópusambandsins. Frekari viðræður eru ekki hafnar, samkvæmt upplýsingum Kjarnans, en það mun skýrast á næstu vikum hvaða form verður á þeim.3