Pressan ehf., félag sem er að stærstum hluta í eigu Björns Inga Hrafnssonar og Arnars Ægissonar, hefur aukið við hlut sinn í DV ehf. Auk þess stendur til að auka hlutafé félagsins umtalsvert, eða um allt að 60 milljónir króna. DV ehf., útgáfufélag dagblaðsins DV og fréttavefsins DV.is, tapaði 124 milljónum króna á árinu 2014 samkvæmt nýbirtum ársreikningi. Skuldir félagsins jukust að sama skapi um rúmlega 90 milljónir króna á því ári og stóðu í 207 milljónum króna í lok þess.
Upplýsingar um eignarhald á DV voru uppfærðar á heimasíðu Fjölmiðlanefndar í gær. Þar kemur fram að Pressan ehf. sé nú skráð með 84,23 prósent eignarhlut í DV, en félagið átti áður um 70 prósent hlut. Á meðal þeirra sem eru ekki lengur skráðir sem eigendur miðilsins eru félög í eigu Reynis Traustasonar, fyrrum ritstjóra DV, sem átti áður um 13 prósent hlut í félaginu. Hvorki Jón Trausti Reynisson, fyrrum framkvæmdastjóri DV og núverandi ritstjóri Stundarinnar, né Ingi Freyr Vilhjálmsson, fyrrum fréttastjóri DV og núverandi blaðamaður á Stundinni, eru heldur lengur á meðal skráðra hluthafa.
Í bréfi sem Pressan sendi á smærri hluthafa fyrir helgi var boðist til að kaupa þá út á genginu 0,5 en hlutafé í DV er sem stendur 155,3 milljónir króna. Það þýðir að verðmatið á DV ehf., miðað við það tilboð, er um 78 milljónir króna. Í umræddu bréfi er einnig upplýst að stjórn DV ehf. hafi ákveðið að auka hlutafé í félaginu um allt að 60 milljónir króna. Pressan ehf. ætlar að auka hlutafé sitt í þeirri aukningu, samkvæmt bréfinu sem sent var á smærri hluthafa.
Reynir tjáir sig um söluna í stöðuuppfærslu á Facebook fyrr í dag. Hægt er að sjá hana hér að neðan.
Afar stormasamt ár hjá DV skilaði slakri afkomu
Í ársreikningi DV ehf. segir að árið 2014 hafi verið „afar stormasamt í rekstri DV ehf. Miklar deilur stóðu stóran hluta ársins um eignarhald blaðsins og bitnaði það mjög á útgáfunni, hafði áhrif á sölu auglýsinga, áskriftir og lausasölu. Pressan ehf. eignaðist síðla árs stærstan hluta hlutafjár í DV ehf. og tók formlega við stjórnartaumunum rétt fyrir jólin 2014. Árið ber því að skoða í því ljósi að nokkuð oft var skipt um stjórn í DV ehf. á árinu, stjórnarformenn voru þrír, framkvæmdastjórar þrír og fjöldi starfsmanna á uppsagnarfresti, sem óhjákvæmilega kom niður á afkomunni.“
Það má með sanni segja að mikil átök hafi átt sér stað um yfirráð yfir DV á árinu 2014. Feðgarnir Reynir Traustason og Jón Trausti Reynisson, ásamt samstarfsmönnum sínum, höfðu þá átt og stýrt DV um nokkurt skeið en fengið fjárhagslega fyrirgreiðslu víða til að standa undir þeim rekstri, meðal annars hjá Gísla Guðmundssyni, fyrrum eiganda B&L. Þeim kröfum var síðan breytt í hlutafé sem dugði til að taka yfir DV. Í átökunum kom maður að nafni Þorsteinn Guðnason fram fyrir hönd þeirra krafna. Ólafur M. Magnússon, fyrrum stjórnarmaður í DV, sagði í samtali við Kjarnann í október 2014 að menn tengdir Framsóknarflokknum hefðu viljað kaupa DV. Framkvæmdastjóri flokksins hafnaði því í kjölfarið í yfirlýsingu.
DV var skömmu síðar selt til hóps undir forystu Björns Inga Hrafnssonar. Kaupin voru gerð í nafni félags sem heitir Pressan ehf. Kaupverðið hefur ekki verið gert opinbert.
Eigendur Pressunnar ehf. eru, líkt og áður sagði, að stærstu leyti félög í eigu Björns Inga Hrafnssonar og Arnars Ægissonar, samstarfsmanns hans í fjölmiðlarekstri til margra ára. Þeir eiga samtals tæplega 40 prósent í félaginu. Auk þess á áðurnefndur Þorsteinn Guðnason 18 prósent hlut, Sigurður G. Guðjónsson lögmaður á tíu prósent, Jón Óttar Ragnarsson á ellefu prósent, Steinn Kári Ragnarsson á tíu prósent og Jakob Hrafnsson, bróðir Björns Inga, á átta prósent.
Skuldir Pressunnar ehf. jukust úr tæpum 69 milljónum króna í 271,7 milljónir króna á árinu 2014. Samhliða aukinni skuldasöfnun jókst bókfært virði eigna félagsins umtalsvert. Það þrefaldaðist á árinu 2014. Þetta kom fram í ársreikningi Pressunnar sem birtur var í síðustu viku. Þar kemur ekki fram hverjir lánveitendur félagsins eru né hvenær lán þess eru á gjalddaga.