Valdir viðskiptavinir Arion banka, sem fengu að kaupa fimm prósent hlut í Símanum af bankanum skömmu fyrir útboð á verði sem reyndist lægra en niðurstaða útboðsins, geta á morgun selt bréf sín. Í Fréttablaðinu í dag segir að virði þeirra hafi hækkað um 410 milljónir króna. Arion banki viðurkenndi í október síðastliðnum að gagnrýni á sölu bréfanna til vildarviðskiptavinanna hefði verið réttmæt.
Fengu lán hjá bankanum fyrir hluta verðsins
Kjarninn hefur fjallað ítarlega um sölu Arion banka á bréfum í Símanum til valins hóps viðskiptavina í aðdraganda skráningar í fyrra.
Síðari hluta septembermánaðar, nokkrum dögum áður en fyrirhugað hlutafjárútboð í Símanum fór fram, fengu nokkrir valdir viðskiptavinir Arion banka að kaupa fimm prósent hlut í Símanum á genginu 2,8 krónur á hlut. Ekki hefur verið gefið upp hverjir fjárfestarnir eru. Þessi hópur má ekki selja hluti sína fyrr en 15. janúar 2016. Meðalverð í útboði Símans var 3,33 krónur á hlut og í dag er gengi bréfa hans um 3,6 krónur á hlut. Miðað við það gengi gæti hópurinn selt hlutinn sinn með 410 milljóna króna hagnaði á morgun þegar söluhömlum verður lyft.
Í tilkynningu sem Arion banki sendi frá sér 23. október vegna málsins kom fram að bankinn fjármagnaði hluta þessara viðskipta, en hann sagði að það hafi verið lítill hluti. Það þýðir að fjárfestarnir sem fengu að kaupa greiddu ekki að öllu leyti fyrir hlutinn. Arion banki lánaði þeim.
Bankinn sagði að ekki hafi verið að „veita viðskiptavinum afslátt frá verðinu heldur[...]að gefa þeim kost á að kaupa nokkru stærri hlut en ella[...]Sú gagnrýni að ekki hafi allir setið við sama borð hefur ekki farið framhjá stjórnendum bankans. Ekki var heppilegt að selja til viðskiptavina bankans svo skömmu fyrir útboðið á gengi sem svo reyndist nokkuð lægra en niðurstaða útboðsins. Bankinn vanmat hina miklu eftirspurn sem raun varð á. Þessi tilhögun er til skoðunar í bankanum og verður tekið mark á gagnrýninni“.
Hópur stjórnenda og fjárfesta fékk líka að kaupa
Salan til vildarviðskiptavinanna á hlut Arion banka í Símanum í aðdraganda útboðs er ekki sú eina sem hefur verið gagnrýnd. Hópur stjórnenda, undir forystu forstjórans Orra Haukssonar, og nokkrir innlendir og erlendir fjárfestar engu einnig að kaupa fimm prósent hlut í félagið áður en almennt útboð fór fram. Þeir fengu að kaupa á genginu 2,5 krónur á hlut. Um þau kaup var tilkynnt í ágúst.
Arion banki hefur greint frá því að samkomulagið við fjárfestahópinn sem keypti fyrst hafi verið gert í maí. Arion banki segir að sú töf sem orðið hafi á að upplýsa um kaupin hafi verið „óheppileg“. Verðmatið hafi á þeim tíma, í maí, verið svipað og á Vodafone, hinu skráðu fjarskiptafyrirtækinu.
Stjórnendur Símans keyptu einnig 0,5 prósent hlut til viðbótar við þau fimm prósent sem áður hafði verið greint frá, á sama verði. Samtals keypti hópurinn því 5,5 prósent hlut. Miðað við gengi Símans í dag hefur virði hlutar þeirra hækkað um 42 prósent. Það gera rúmlega 600 milljónir króna. Söluhömlur eru á fyrstu fimm prósentunum til 1. janúar 2017. Stjórnendur Símans mega hins vegar selja 0,5 prósent hlut sinn strax í mars á þessu ári, eftir rúma fjóra mánuði.