Frá og með síðustu áramótum er fyrirtækjum heimilt að draga hærra hlutfall frá tekjum sínum vegna framlaga til góðgerðarmála. Samkvæmt breytingum sem gerðar hafa verið á skattalögum hefur hlutfallið verið hækkað úr 0,5 prósent í 0,75 prósent. Um getur verið að ræða framlög til kirkjufélaga, viðurkenndra líknarstarfsemi, menningarmála, stjórnmálaflokka og vísindalegra rannsóknarstarfa. Frá þessu er greint í Morgunblaðinu í dag.
Á árinu 2014, samkvæmt þeim framtölum sem þegar hefur verið skilað inn vegna þess, skráðu 5.778 aðilar sig með gjafir upp á samtals 2,8 milljarða króna. Þetta eru 17,5 prósent þeirra tæplega 33 þúsund aðila sem skilað höfðu framtali. Heildartekjur þeirra sem gáfu á árinu 2014 voru 2.145 milljarðar króna. Gjafir þeirra námu því 0,13 prósent af tekjum þeirra.
Í Morgunblaðinu er rætt við Völu Valtýsdóttur, lögfræðing og sviðsstjóra skatta- og lögfræðisviðs Deloitte. Hún segir erfitt að átta sig á hvort fyrirtæki muni í auknum mæli hækka framlög sín til góðgerðarmála í framhaldi af breytingunum. Auk þess sé líklegt að sum fyrirtæki hafi ekki vitneskju um að þetta sé hægt. „En það er ýmislegt sem getur fallið undir góðgerðarmál samkvæmt reglugerð sem var upphaflega gefin út árið 1994. Frádráttarheimildin nær ekki einungis til hefðbundinna góðgerðarmála eins og líknarstarfsemi, trúfélaga, stjórnmálafélaga, menntamála og rannsóknarstarfs heldur einnig til byggingar skólahúsa, íþróttamannvirkja og íþróttastarfsemi. Það er því ýmislegt sem getur fallið þarna undir sem er meira en það sem ákvæðið í tekjuskattslögunum segir til um."
Breytingar hafa einnig verið gerðar á lögum um erfðaskatt sem snýr að gjöfum til félagasamtaka og sjálfseignarstofnana sem starfa að almannaheillum. Þær gjafir eru nú undanskildar erfðaskatt en áður var á þeim tíu prósent skattur.