Gulleggið, stærsta frumkvöðlakeppni landsins, er að fara af stað í níunda sinn á jafn mörgum árum. Hægt er að senda inn hugmyndir til 20. janúar næstkomandi en úr hópi umsókna verða tíu hugmyndir frumkvöðla valdar sem verða kynntar fyrir fjárfestum auk þess sem sigurvegarinn í keppninni hlýtur Gulleggið. Lesendur Kjarnans fá jafnframt tækifæri til að kjósa sína áhugaverðustu hugmynd hér á síðunni.
Icelandic Startups (áður Klak Innovit) hefur umsjón með keppninni. Gullegginu hefur borist um 2.000 hugmyndir frá því að keppnin hófst. Keppnin er opin öllum og hægt er að senda inn hvaða hugmynd sem er. Stjórn Gulleggsins hefur þess vegna valið umræðutáknið #engarhindranir fyrir keppnina. Fróðlegt er að skoða tíst frá fyrrverandi keppendum og öðrum sem fylgst hafa með keppninni.
Vinnusmiðjur hugmyndasmiðanna hefjast eftir að umsóknarfrestur rennur út en í lok þeirra skila þátttakendur inn viðskiptaáætlun. Rýnihópur mun svo velja tíu bestu hugmyndirnar. Teymin tíu fá þjálfun í framkomu og kynna svo áætlanir sínar fyrir fjárfestum á lokadegi Gulleggsins 12. mars.
Fjöldi fyrirtækja hefur náð framúrskarandi árangri eftir þátttöku í Gullegginu. Þar á meðal má nefna Meniga, Clara, Karolina Fund, Controlant, Pink Iceland, Radient Games og CrowBar Protein, svo fátt eitt sé nefnt. Svava Björk Ólafsdóttir, verkefnastjóri hjá Icelandic Startups og umsjónarmaður Gulleggsins, segir keppnina löngu orðna gæðastimpil á viðskiptahugmyndir. „Gulleggið stuðlar að sköpun nýrra starfa og verðmæta fyrir Íslenskt samfélag. Það sannast sem helst með því að horfa til fyrri Gulleggja sem náð hafa góðum árangri.“
Hægt er að fylgjast með íslensku nýsköpunarsenunni á Watchbox í glugganum hér að neðan eða í Watchbox-appinu. „Við höfum ákveðið að hvetja frumkvöðla til að deila myndum og myndböndum á rásinni #icelandicstartups á Watchbox,“ segir Svava. Einnig er hægt að fylgjast með markaðsteymi Gulleggsins á nova-rásinni á Snapchat í dag.