Vogunarsjóðurinn Burlington Loan Management, sem er fjármagnaður og stýrt af bandaríska sjóðsstýringarfyrirtækinu Davidson Kempner,hefur keypt 31,8 prósent hlut Arion banka í Klakka, sem áður hét Exista. Fyrir átti Burlington 13,2 prósent hlut í félaginu og því nemur eignarhlutur þess nú um 45 prósent. Kaupin voru gerð í nafni BLM Fjárfestinga ehf., íslensks dótturfélags Burlington. Sjóðurinn er stærsti erlendi kröfuhafi íslensks atvinnulífs.
Klakki er móðurfélag fjármögnunarfyrirtækisins Lýsingar, sem sérhæfir sig í að fjármagna atvinnutæki, atvinnuhúsnæði og bifreiðar fyrir fyrirtæki og einstaklinga. Frá þessu er greint í DV í dag.
Þar er rætt við Magnús Scheving Thorsteinsson, sem er skráður eini stjórnarmaður BLM Fjárfestinga, en hann er einnig forstjóri Klakka og stjórnarformaður Lýsingar. Hann staðfesti kaupin en vildi ekki tjá sig um hvert kaupverðið væri. Arion banki, sem seldi hlutinn til BLM Fjárfestinga, vildi ekki tjá sig um söluverðið og sagði það trúnaðarmál. Í DV kemur fram að Fjármálaeftirlitið hefur metið Burlington Loan Management, auk tengdra aðila, hæft til að fara með allt að 50 prósent virkan eignarhlut með óbeinni hlutdeild í Lýsingu.
Stærsti kröfuhafi íslenska bankakerfisins
Burlington á gríðarlega mikið af eignum á Íslandi. Þær hefur hann sankað að sér í gegnum árin. Á árinu 2013 jók sjóðurinn til að mynda eignir sínar á Íslandi um 70 prósent og í lok þess árs voru 18 prósent af fjárfestingaeignum hans á Íslandi. Í lok árs 2014 voru íslensku eignirnar tíu prósent af fjárfesingaeignum hans, en sjóðurinn jók mjög umsvif sín á því ári.
Stærsta einstaka eign hans eru kröfur í þrotabú Glitnis, en Burlington er stærsti kröfuhafi búsins. Nafnvirði krafna Burlington í bú bankans, samkvæmt nýjustu upplýsingum Kjarnans um umfang þeirra, er að minnsta kosti vel á þriðja hundrað milljarð króna. Burlington mun fá rúmlega 30 prósent af nafnvirði þeirra krafna í kjölfar þess nauðasamningur Glitnis var staðfestur af dómstólum í desember. Greiðslur til kröfuhafa munu hefjast þegar stöðugleikaframlög hafa verið afhent ríkinu, en það gerist að öllum líkindum ekki fyrr í fyrsta lagi seinna í þessum mánuði.
Sjóðurinn er einnig einn stærsti kröfuhafi slitabús Kaupþings. Í nóvember 2012 átti hann kröfur í búið að nafnvirði 109 milljarðar króna. Til viðbótar hefur Burlington átt fullt af öðrum eignum hérlendis. Sjóðurinn á umtalsverðar kröfu í bú Landsbankans, er á meðal eiganda ALMC (áður Straumur fjárfestingabanki), átti beint 13,4 prósent hlut í Klakka (sem seldi stóran hlut í VÍS í fyrra og á allt hlutafé í Lýsingu) og keypti 26 milljarða króna skuldir Lýsingar skömmu fyrir áramót 2013. Nú hefur hlutur Burlington í Klakka hækkað í 45 prósent. Auk þess hefur sjóðurinn verið að kaupa hluti í Bakkavör í Bretlandi af miklum móð á undanförnum árum, en þær eignir eru skráðar sem breskar þótt aðrir stórir eigendur séu að mestu íslenskir og rætur fyrirtækisins liggi hérlendis.