Tveir þingmenn Samfylkingarinnar, Sigríður Ingibjörg Ingadóttir og Helgi Hjörvar, hafa lagt fram frumvarp um bann við verðtryggingu á nýjum neytendalánum, þar á meðal húsnæðislánum. Bannið á ekki að vera afturvirkt og því ekki að ná til þeirra verðtryggðu lánasamninga sem þegar hafa verið gerðir.
Í greinargerð með frumvarpinu segir margvísleg efnahagsleg rök og þörf á aukinni neytendavernd kalli á afnám almennrar verðtryggingar neytendalána. Þá hafi ríkisstjórn Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar forsætisráðherra sett „ákveðið fordæmi fyrir því hvernig skuli bregðast við efnahagsveiflum í framtíðinni“ með leiðréttingu verðtryggra húsnæðislána vegna verðbólguskots upp á 80 milljarða króna.
Framsókn hefur lofað afnámi verðtryggingar
Framsóknarflokkurinn ræddi mikið um afnám verðtryggingarinnar í aðdraganda síðustu kosninga. Í pistli fyrir kosningarnar, sem nefndist Framsóknarstjórn eða verðtryggingarstjórn, sagði Sigmundur Davíð meðal annars að staðan væri ekki flókin og ljóst væri að annað hvort yrði ríkisstjórn mynduð um skuldaleiðréttingu, afnám verðtryggingar og heilbrigðara fjármálakerfi, eða ríkisstjórn þeirra sem væru gegn þessum málum.
Í stefnuskrá Framsóknarflokksins fyrir síðustu kosningar var þessi stefna einnig tíunduð. Þar sagði að flokkurinn ætlaði sér að afnema verðtryggingu á neytendalánum. Undir þeim lið sem fjallaði um þá aðgerð sagði m.a.: „Fyrsta skrefið verði að setja þak á hækkun verðtryggingar neytendalána". Slíkt þak hefur ekki verið sett það sem af er kjörtímabilinu.
Eftir kosningar var skipaður starfshópur til að undirbúa afnám verðtryggingar. Hann komst að þeirri niðurstöðu árið 2014 að það ætti ekki að afnema verðtryggingu.
Um síðustu helgi sagðist Sigmundur Davíð, í samtali við Eyjuna á Stöð 2, að hann sjái fyrir sér að hægt yrði að setja afnám verðtryggingu í þjóðaratkvæðagreiðslu. Ljóst er að samstarfsflokkur Framsóknarflokksins í ríkisstjórn, Sjálfstæðisflokkurinn, hefur engan hug á því að afnema verðtryggingu. Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, hefur sagt slikt opinberlega.
Íslendingar taka frekar verðtryggð lán
Í greinargerð Sigríðar Ingibjargar og Helga Hjörvars er fjallað sérstaklega um þessi loforð Framsóknarflokksins. Þar segir: „Framsóknarflokkurinn lofaði afdráttarlaust fyrir síðustu kosningar að verðtrygging yrði afnumin með öllu. Það er því ljóst að staða verðtryggingar á lánamarkaði er í uppnámi og mikilvægt að bregðast við af festu. Þrátt fyrir þessa stöðu er óvíst með öllu hvenær ríkisstjórnin hyggst leggja fram lagafrumvarp um málið. Þess vegna er mikilvægt að löggjafinn dragi úr óvissu með því að banna verðtryggð neytendalán með skýrum hætti.“
Auk þess er það notað sem rökstuðningur fyrir frumvarpinu að flest bendi til þess að afnám verðtryggingar neytendalána njóti víðtæks stuðnings. Könnun frá árinu 2009 sýni 80 prósent stuðning við afnám verðtryggingar og 37 þúsund manns hafi skrifað undir undirskriftasöfnun Hagsmunasamtaka heimilanna á árinu 2011 um að afnema hana. Síðar segir: „ Litlar líkur eru á að krafan minnki í bráð og almenningur sætti sig við verðtrygginguna. Þetta þurfa stjórnvöld að taka alvarlega. Í lýðræðisþjóðfélagi fær kerfi á borð við verðtryggingu ekki staðist til lengdar ef andúð almennings er jafnsterk og almenn og raun ber vitni.“
Þorri íslenskra húsnæðislána eru verðtryggð og Íslendingar taka enn frekar verðtryggð lán en óverðtryggð. Á fyrstu níu mánuðum ársins 2015 jukust húsnæðislán til að mynda um 87 milljarða króna. Meirihluti þeirra voru verðtryggð lán.