Árni Páll Árnason, formaður Samfylkingarinnar, segist ekki vera sammála frumvarpi sem samflokksmenn hans, þau Sigríður Ingibjörg Ingadóttir og Helgi Hjörvar, hafa lagt fram á Alþingi um afnám verðtryggingar. Árni Páll segist ekki telja rétt að banna verðtryggð neytendalán. „Ég tel rétt að fólk fái aukið valfrelsi og að við reynum að þróa lánamarkaðinn þannig að hlutfall óverðtryggðra lána hækki." Þetta sagði Árni Páll í Morgunútvarpi Rásar 2 í morgun.
Sigríður Ingibjörg Ingadóttir og Helgi Hjörvar hafa lagt fram frumvarp um bann við verðtryggingu á nýjum neytendalánum, þar á meðal húsnæðislánum. Bannið á ekki að vera afturvirkt og því ekki að ná til þeirra verðtryggðu lánasamninga sem þegar hafa verið gerðir.
Í greinargerð með frumvarpinu segir margvísleg efnahagsleg rök og þörf á aukinni neytendavernd kalli á afnám almennrar verðtryggingar neytendalána. Þá hafi ríkisstjórn Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar forsætisráðherra sett „ákveðið fordæmi fyrir því hvernig skuli bregðast við efnahagsveiflum í framtíðinni“ með leiðréttingu verðtryggra húsnæðislána vegna verðbólguskots upp á 80 milljarða króna.
Á síðasta landsfundi Samfylkingarinnar, sem fram fór í mars 2015, bauð Sigríður Ingibjörg sig fram til formanns gegn sitjandi formanni, Árna Páli. Þar sem framboðið barst skömmu fyrir landsfund gátu einungis landsfulltrúar kosið í formannskosningunum í stað þess að allsherjaratkvæðagreiðsla færi fram sem allir flokksmenn gætu tekið þátt í. Niðurstaðan varð sú að Árni Páll sigraði með einu atkvæði, hlaut 241 atkvæði en Sigríður Ingibjörg 240.