Ásgeir Jónsson, dósent við Háskóla Íslands, hefur verið kjörinn deildarforseti Hagfræðideildar fram til sumars 2018 og hefur þegar tekið við af Tór Einarssyni. Tinna Laufey Ásgeirsdóttir mun gegna stöðu varaforseta deildarinnar fram til 1.júlí 2016. Ásgeir er einnig umsjónarmaður meistaranáms í fjármálahagfræði við sömu deild. Þetta kemur fram í frétt á síðu Háskóla Íslands.
Ásgeir starfar einnig sem efnahagsráðgjafi verðbréfafyrirtækisins Virðingar. Hann var ráðinn þangað í apríl 2015. Ásgeir var aðalhagfræðingur Kaupþings árið 2004 og forstöðumaður greiningadeildar bankans á árunum 2004 til 2008. Hann gengdi sömu stöðu hjá Arion banka til ársins 2011. Ásgeir gekk síðan til liðs við verðbréfafyrirtækið GAMMA og starfaði sem efnahagsráðgjafi þess þar til í desember 2014.
Í frétt Háskólans segir að þau verkefni sem Ásgeir hafi unnið að innan Hagfræðideildar skólans séu meðal annars tengd alþjóðafjármálum, peningahagfræði, hagsögu, orkuhagfræði, fasteignamarkaðinum, byggðahagfræði og almennri þjóðhagfræði.
Ásgeir lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum á Akureyri árið 1990, BS prófi í hagfræði frá Hagfræðideild Háskóla Íslands árið 1994 og síðan doktorsprófi í hagfræði með áherslu á peningahagfræði, alþjóðaviðskipti og hagsögu frá Indiana University árið 2001.