Landsbankinn fékk gott verð fyrir 31,2 prósent hlut sinn í Borgun og verðmatið byggði á bestu fáanlegu upplýsingum sem bankinn gat komist yfir á þeim tíma. Stjórnendur Landsbankans hafa hinsvegar hlustað á og tekið mark á gagnrýni á söluferlið á Borgun. Ef bankinn verður aftur í „sömu eða svipaðri aðstöðu munum við fara öðruvísi að og hafa söluferlið opið.“ Þetta er meðal þess sem kemur fram í aðsendri grein eftir Steinþór Pálsson, bankastjóra Landsbankans, sem birtist í Morgunblaðinu í dag.
Þar segir hann einnig að ef Fjármálaeftirlitið ákveði að rannsaka sölu Landsbankans á hlut sínum í Borgun, sem fór fram fyrir luktum dyrum í nóvember 2014, þá geti bankinn enga athugasemd við það. Stjórnendur bankans muni einnig skýra málið fyrir nefnd Alþingis verði þess óskað.
Steinþór segir einnig að það hafi verið annmörkum háð að efna til opins söluferlis á hlutnum í Borgun. Landsbankinn hefði haft lítinn aðgang að upplýsingum um fyrirtækið og því hafi hann metið að erfitt yrði að tryggja eðlilega upplýsingagjöf og aðgengi annarra hugsanlegra tilboðsgjafa en stjórnenda að gögnum til að vinna áreiðanleikakannanir. Því sé bæði óvíst að betra verð hefði fengist fyrir hlutinn með þeim hætti eða að staða bankans gagnvart mögulegum viðbótargreiðslum hefði orðið önnur.
Viðskiptavit starfsfólk bankans ekki lítið
Nýr kafli var skrifaður í hina umdeildu sölu á hlut Landsbankans á 31,2 prósent hlut í Borgun í vikunni. Þá var opinberað í íslenskum fjölmiðlum að Borgun og Valitor, íslensk greiðslukortafyrirtæki sem gefa m.a. út Visa-greiðslukort, mun hagnast um á annan tug milljarða króna vegna kaupa Visa Inc. á Visa Europe. Fyrirtækin munu bæði fá hlutdeild í 3.000 milljarða króna söluvirði Visa Europe. Kaup Visa Inc. á Visa Europe höfðu verið yfirvofandi árum saman og þegar að Landsbankinn seldi hlut sinn í Borgun á 2,2 milljarða króna til hóps stjórnenda fyrirtækisins og meðfjárfesta þeirra þá lá fyrir viljayfirlýsing um að gana frá kaupunum. Samt var ekki gerð nein krafa um viðbótargreiðslur frá nýjum eigendum á hlut Landsbankans í Borgun ef af kaupum Visa Inc. á Visa Europe yrði. Þetta hefur verið harðlega gagnrýnt undanfarna daga og á Alþingi hefur verið kallað eftir rannsókn á málinu. Sú gagnrýni bætist við mikla gagnrýni sem kom fram eftir að Kjarninn upplýsti seint í nóvember 2014 að hlutur ríkisbankans í Borgun hefði verið seldur í ógagnsæju ferli fyrir verð sem margir telja allt of lágt. Sú gagnrýni jókst örfáum mánuðum síðar þegar Borgun greiddi eigendum sínum 800 milljónir króna í arð vegna frammistöðu ársins 2014.
Steinþór svarar gagnrýninni í grein sinni í Morgunblaðinu. Þar hafnar hann því að skortur á samningi um viðbótargreiðslur við Borgun sé til marks um lítið viðskiptavit starfsfólks Landsbankans. Það megi vissulega færa rök fyrir því, í ljósi þess hversu vel hafi gengið hjá Borgun í fyrra, að rétt hefði verið að bíða með söluna. „Slík rök eiga á hinn bóginn við í nánast öllum hlutabréfaviðskiptum og má t.d. benda á að mörg félög í íslensku kauphöllinni hafa hækkað um meira en 50% á rúmlega ári. Slíkt sáu fáir fyrir, eins og eðlilegt er.
Skýringin á því að ekki var gerður samningur um viðbótargreiðslur við Borgun, líkt og gert var varðandi Valitor, er í stuttu máli sú að viðskipti Landsbankans við fyrirtækin voru og eru gjörólík. Borgun hafði fyrst og fremst annast útgáfu Mastercard-korta á Íslandi og Landsbankinn hafði aldrei gefið út Visa-kort hér á landi fyrir milligöngu Borgunar. Þar með hafði Landsbankinn ekki rök eða forsendur til greiðslna samkvæmt fyrrnefndum valrétti, líkt og í tilfelli Valitor.“
Útrás Borgunar áhættusöm
Steinþór segir ástæðu þess að Borgun hafi gengið jafn vel og raun ber vitni í fyrra útrás fyrirtækisins. Það hafi legið fyrir þegar bankinn mat virði Borgunar í tengslum við söluna að sú útrás væri framundan. Bankinn taldi hana áhættusama. „Viðskipti sem þessi heppnast ekki alltaf. Landsbankinn taldi sér ekki hag í að taka þessa áhættu, enda hefur bankinn frá endurreisn 2008 markvisst reynt að draga úr áhættu sinni, m.a. með sölu á hlutabréfum. Við söluna á eignarhlutnum í Borgun lá ekki fyrir að hvaða marki áformin um aukin erlend viðskipti yrðu í samstarfi við Visa eða við önnur erlend kortafyrirtæki. Samkvæmt þeim upplýsingum sem Landsbankinn hefur fengið byggjast greiðslur til Borgunar vegna valréttarins að mestu leyti á erlendum Visa-umsvifum fyrirtækisins eftir að Landsbankinn seldi hlut sinn.[...]Við í Landsbankanum sáum ekki fyrir að Borgun fengi svona háar viðbótargreiðslur vegna samruna Visa Europe og Visa Inc. eins og nú stefnir í, enda byggist sú fjárhæð að mestu á umsvifum fyrirtækisins eftir að við seldum. Á hinn bóginn er ljóst að hefði útrás Borgunar endað illa hefði bankinn getað tapað miklum fjármunum. Viðskiptum fylgir áhætta. Okkar verðmat byggðist á bestu fáanlegum upplýsingum á þeim tíma.“
Samkeppniseftirlitið sagði bankanum aldrei að selja
Steinþór segir einnig að bankarnir hafi verið undir miklum þrýstingi frá Samkeppniseftirlitinu um að breyta eignarhaldi á kortafyrirtækjunum þannig að aðeins einn banki kæmi að hverju fyrirtæki.
Samkeppniseftirlitið hafnaði því í tilkynningu í gær að það hafi sett Landsbankanum tímamörk eða önnur bindandi skilyrði varðandi fyrirkomulag á sölu eignarhluta bankans í Borgun.„Sala Landsbankans á hlutum sínum í Borgun og Valitor og tilhögun hennar var því alfarið á forræði og á ábyrgð Landsbankans." Eftirlitið setti því aldrei skilyrði um að Landsbankinn myndi selja sig út úr Borgun.
Tilkynningin var send vegna ummæla Steinþórs Pálssonar í fjölmiðlum, en hann hafði þar meðal annars vísað til krafna og þrýstings sem Samkeppniseftirlitið hafi sett á bankann í rökstuðningi fyrir sölu á hlutnum í Borgun á þeim tíma sem hann var seldur.
Í tilkynningunni sagði einnig að ummæli Steinþórs í Fréttablaðinu í gær, um að bankinn hafi haft takmarkað aðgengi að upplýsingum um Borgun vegna sáttar við Samkeppniseftirlitið hafi ekki verið rétt. Eftirlitið sagðist ekki geta fallist á „að ráðstafanir eftirlitsins hafi haft áhrif á skilmála eða viðskiptakjör umræddrar sölu."