Vigdís Hauksdóttir, formaður fjárlaganefndar, og Guðlaugur Þór Þórðarson, varaformaður nefndarinn, hafa boðað fulltrúa Bankasýslu ríkisins á fund til að ræða málefni er tengjast sölu bankanna á eignum án þess að útboð hafi farið fram.
Í bréfinu sem sent var til Bankasýslunnar er sérstaklega vitnað í eigendastefnu ríkisins, og hvort farið hafi verið eftir henni í öllum tilvikum, meðal annars þegar Landsbankinn seldi 31,2 prósent hlut sinn í Borgun.
Fundurinn fer fram miðvikudaginn 27. janúar milli klukkan 08:00 og 09:00.
Í framtíðarstefnu Bankasýslu ríkisins, sem vitnað er til í bréfinu, segir: ,,Eigendahlutverk Bankasýsla ríkisins fer með eignarhluta ríkisins í fjármálafyrirtækjum, sbr. a-lið 4.gr. Bankasýslulaganna, í samræmi við eigendastefnu ríkisins hverju sinni, sbr. c-lið sömu greinar. Aðalmarkmið framangreindrar eigendastefnu er þríþætt: (a) að byggja upp heilbrigt og öflugt fjármálakerfi, (b) að auka trúverðugleika á íslenskum fjármálamarkaði og (c) að tryggja að ríkið fái arð af fjárfestingu sinni. Til að ná framangreindum markmiðum eigendastefnunnar gerir Bankasýsla ríkisins samning við stjórnir hlutaðeigandi fyrirtækja um sérstök og almenn markmið í rekstri og fylgir þeim eftir. Það er hlutverk Bankasýslu ríkisins, að vera virkur eigandi í fjármálafyrirtækjum, sem stofnunin fer með eignarhluti í, að leitast við að bæta stjórnarhætti þeirra og upplýsingagjöf til hluthafa, og að tryggja að ákvæðum hluthafasamkomulaga sé framfylgt. Stofnunin leggur áherslu á að eiga gott samstarf við meðeigendur fjármálafyrirtækjanna og stjórnendur, en einnig að veita þeim viðhlítandi aðhald.“
Í bréfinu eru sérstaklega nefnd dæmi, sem fjallað hefur verið um, þar sem fyrirtæki og eignarhlutir í þeim hafa verið seld án þess að útboð færi fram. „Frá því að bankarnir komust í hendurnar á ríkinu hafa reglulega borist fréttir af því að eignir hafi verið seldar án þess farið hafi fram opið útboð. Má þar nefna Húsasmiðjuna, EJS, Plastprent, Icelandic, Skýrr, EJS, HugAX, Vodafone, Símann og Borgun,“ segir í bréfinu, og spurt hvort Bankasýslan telji að eigendastefnunni hafi verið framfylgt.
„Nú liggur fyrir að enn stærri hluti bankakerfisins
verður í höndum ríkisins. Það þarf því ekki að fara mörgum orðum um mikilvægi
þess að traust ríki á fjármálamarkaði og ekki síst þegar um er að ræða sölu á
eignum og eignarhlutum í stærri fyrirtækjum og fjármálastofnunum,“ segir í niðurlaginu.