Landsbankinn hefði fengið milli sex og átta prósent af hlutdeild Borgunar í söluandvirði Visa Europe ef fyrirvari hefði verið um greiðslur vegna kaupa Visa Inc. á Visa Europe áður en bankinn seldi hlut sinn í Borgun. Þetta hefur Kjarninn fengið staðfest hjá Borgun.
Hlutfallið miðast við umfang erlendra Visa-viðskipta Borgunar í lok árs 2013, en í viðræðum um sölu á 31,2 prósenta hlut Landsbankans í Borgun var stuðst við ársreikning þess árs. Viðræðurnar hófust í mars 2014 og þeim lauk seint í nóvember saman ár með því að Eignarhaldsfélagið Borgun greiddi 2,2 milljarða króna fyrir hlutinn.
Síðan þá hefur umfang erlendra Visa-viðskipta Borgunar aukist gríðarlega, sérstaklega á árinu 2015. Sú aukning hefur skilað því að hlutdeild Borgunar í söluvirði Visa Europe, sem áætlað er um þrjú þúsund milljarðar króna, hefur aukist verulega. Ekki liggur nákvæmlega ljóst fyrir hversu mikið mun falla fyrirtækinu í skaut, enda viðskiptin ekki frágengin. Ljóst er þó að Borgun og Valitor, það íslenska greiðslufyrirtæki sem hefur verið með mest umsvif í Visa-viðskiptum undanfarna áratugi, fá á annan tug milljarða króna í sinn hlut þegar viðskiptin verða kláruð.
Höfðu áhyggjur af orðspori
Kjarninn greindi frá því um helgina að Landsbankinn hafi verið með upplýsingar um valrétt Visa Inc. á kaupum á Visa Europe áður en bankinn seldi hlut sinn í Borgun. Hann vissi einnig af áformum Borgunar um útrás á árinu 2015 og var með upplýsingar um rekstur fyrirtækisins.
Landsbankinn sendi frá sér tilkynningu í morgun þar sem meðal annars kom fram að „Landsbankanum var kunnugt um að Borgun hugðist auka verulega færsluhirðingu fyrir seljendur í erlendum netviðskiptum. Að mati bankans fylgdi þeirri starfsemi veruleg áhætta og líkur voru taldar á að hún gæti leitt til tjóns hjá félaginu og skaðað orðspor Landsbankans."
Samkvæmt heimildum Kjarnans voru meðal annars uppi áhyggjur um að útrás Borgunar myndi fela í sér aukningu á færsluhirðingu fyrir veðmálaviðskipti og klámsíður.
Haukur Oddsson, forstjóri Borgunar, segir að eina atvinnugreinin sem vigti meira en fimm prósent í erlendum viðskiptum Borgunar sé smásala. Engin önnur atvinnugrein, hvort sem það séu veðmálaviðskipti, stafrænt efni (e. digital content) eða viðskipti hótela vigti meira inn í heildarumfang viðskipta Borgunar en fimm prósent. Viðskipti klámsíðna er oftast nær flokkuð sem stafrænt efni.
Haukur segir að viðskipti Borgunar séu nákvæmlega eins og lög geri ráð fyrir að þau séu. Sókn fyrirtækisins erlendis á árinu 2015 hafi að langmestu leyti verið fólgin í því að venjulegar verslanir víðsvegar innan Evrópu hafi hafið viðskipti við Borgun. Fyrirtækið sé til að mynda í viðskiptum við um þrjú þúsund verslanir í Ungverjalandi og annað eins í Bretlandi. Allt að 200 verslanir bætist við viðskiptamannahópinn hjá Borgun í hverri viku. Þessi mikla aukning geri það að verkum að færsluhirðing fyrir seljendur erlendis margfaldaðist á árinu 2015.
Engar upplýsingar um rétt til hlutdeildar í viðræðum
Í tilkynningu Landsbankans sem send var í dag kom fram að Landsbankinn hefði engar upplýsingar um að Borgun myndi fá greiðslur vegna yfirtöku Visa Inc. á Visa Europe.
Bankinn opnaði samhliða upplýsingasíðu þar sem veittar eru upplýsingar um sölu Landsbankans á hlut í Borgun.
„Í viðræðum Landsbankans við meirihlutaeiganda Valitor, Arion banka, lágu fyrir upplýsingar um réttindi Valitor í tengslum við valréttinn, þótt útilokað hafi verið að leggja áreiðanlegt mat á verðmætin á þeim tímapunkti. Borgun gerir upp samkvæmt alþjóðlegum reikningsskilastöðlum (IFRS) og ber því að færa slík réttindi á gangvirði á hverjum tíma. Það að Borgun hafi ekki metið slík réttindi til eignar og/eða gert grein fyrir þeim í sínum ársreikningum eða í upplýsingagjöf til Landsbankans, bendir til þess að Borgun hafi á þeim tíma ekki átt tilkall til réttindanna, þau hafi ekki verið til staðar eða þau væru það óljós að ekki væri hægt að reikna þau til verðmætis. Stjórnendahópurinn sem var í viðræðum við Landsbankann hafði fengið leyfi stjórnar til að gefa upplýsingar um rekstur félagsins. Í viðræðunum við stjórnendur komu ekki fram neinar upplýsingar um að Borgun hefði rétt til hlutdeildar í verðmætum valréttarins, hvað þá að vegna hans hefðu skapast verðmæti hjá Borgun. Landsbankinn hefur enga ástæðu til að ætla að stjórnendur Borgunar hafi verið meðvitaðir um tilvist slíkra réttinda.“
Haukur segir að það hafi verið opinberar upplýsingar að Borgun sé útgefandi hjá Visa Europe.