Hreiðar Már Sigurðsson, fyrrverandi bankastjóri Kaupþings, Sigurður Einarsson, fyrrverandi stjórnarformaður Kaupþings, og Magnús Guðmundsson, fyrrverandi bankastjóri Kaupþings í Lúxemborg, voru í Héraðsdómi Reykjavíkur í morgun sýknaðir í svokölluðu CLN-máli. RÚV greinir frá.
Í málinu voru Hreiðar Már og Sigurður ákærðir fyrir fyrir stórfelld umboðssvik með því að lánað fjórum eignarhaldsfélögum 260 milljónir evra. Félögin fjögur lánuðu féð áfram til tveggja annarra félaga sem notuðu það til að kaupa lánshæfistengd skuldabréf (Credit Linked Notes, eða CLN) sem tengd voru skuldatryggingarálagi Kaupþings. Þegar þýski bankinn Deutsche Bank hóf veðköll vegna málsins fengu síðari félögin tvö 260 milljónir evra til viðbótar lánuð. Samtals nemur lánsupphæðin 510 milljónum evra, eða um 72 milljörðum króna á gengi dagsins í dag. Í ákæru sérstaks saksóknara kemur fram að talið sé að útlánin séu að öllu leyti töpuð. Þar segir einnig að mennirnir tveir hafi valdið Kaupþingi „stórfelldu tjóni“ með háttsemi sinni.
Magnús var einnig ákærður í málinu fyrir hlutdeild í umboðssvikum.
Allir afplána dóma vegna annarra mála
Allir sakborningarnir þrír, sem sýknaðir voru í morgun, afplána sem stendur dóma á Kvíabryggju. Þeir hlutu allir dóma í Hæstarétti í Al Thani-málinu í febrúar 2015. Þar var Hreiðar Már dæmdur í fimm og hálfs árs fangelsi, Sigurður í fjögurra ára fangelsi og Magnús í fjögurra og hálfs árs fangelsi. Ólafur Ólafsson, sem var stór eigandi í Kaupþingi fyrir hrun, hlaut einnig fjögurra ára fangelsi. Voru fjórmenningarnir dæmdir fyrir markaðsmisnotkun á grundvelli laga um verðbréfaviðskipti og umboðssvik samkvæmt hegningarlögum. Hæstiréttur kallaði brot mannanna alvarlegustu efnahagsbrot sem „nokkur dæmi verða fundin um í íslenskri dómaframkvæmd varðandi efnahagsbrot[…]Ákærðu[...]eiga sér engar málsbætur“.
Hreiðar Már, Sigurður og Magnús voru einnig allir ákærðir í stóra markaðsmisnotkunarmáli Kaupþings sem héraðsdómur dæmdi í árið 2015. Þar var Hreiðar Már dæmdur sekur en hlaut ekki viðbótarrefsingu. Sigurður var einnig dæmdur sekur og einu ári var bætt við afplánun hans. Tveimur ákæruliðum gegn Magnúsi var hins vegar vísað frá og hann sýknaður í málinu að öðru leyti. Niðurstöðunni hefur verið áfrýjað til Hæstaréttar.
Þá voru bæði Hreiðar Már og Magnús dæmdir sekir í héraðsdómi í október 2015 í svokölluðu Marple-máli. Hreiðar Már hlaut þá sex mánaða aukarefsingu en Magnús var dæmdur í 18 mánaða fangelsi. Skúli Þorvaldsson var einnig dæmdur til sex mánaða fangelsisvistar en Guðný Arna Sveinsdóttir, fyrrverandi fjármálastjóri bankans, var sýknuð af ákæru í málinu. Hreiðar Már og Guðný Arna voru ákærð fyrir fjárdrátt og umboðssvik. Magnús var ákærður fyrir hlutdeild í fjárdrætti og umboðssvikum og Skúli var ákærður fyrir hylmingu.