Samið hefur verið um starfslok Halldór Bjarkars Lúðvígssonar, framkvæmdastjóra fjárfestingabankasviðs Arion banka. Halldór Bjarkar segir að þetta hafi verið ákvörðun sem hafi verið að gerjast í nokkurn tíma. Þegar að úrslausn á aðkomu Arion banka að Bakkavör, verkefni sem hann hafði unnið að árum saman, lauk í byrjun viku hafi Halldór Bjarkar talið að það væri góður tími til að skipta um vettvang. „Stærstu úrlausnarverkefnin sem ég hef leitt fyrir bankann er að mestu lokið.“ Kjarninn fjallaði ítarlega um söluna á hlut Arion banka og íslenskra lífeyrissjóða í fréttaskýringu í gær.
Haraldur Guðni Eiðsson, upplýsingafulltrúi Arion banka, segir að starfslok Halldórs Bjarkar hafi verið til umræðu í nokkurn tíma. Ýmislegt hafi spilað inn í þau en bankinn vill ekki tjá sig um einstök atriði þess. Halldór Bjarkar mun láta af störfum á næstu dögum. Hann segir það eiga eftir að koma í ljós hvað taki við og að starfslokin hafi verið samkomulag milli hans og bankastjóra Arion banka.
Ekki hefur verið ákveðið hver tekur við starfi hans.
Arion braut lög með sölu á bréfum í Högum
Halldór Bjarkar hefur síður en svo verið óumdeildur í störfum sínum, en hann hefur leitt endurskipulagningu og sölu á þeim fyrirtækjum og eignarhlutum sem Arion banki fékk í vöggugjöf eftir hrunið. Á meðal þeirra eru smásölurisinn Hagar, Síminn, Klakki (áður Exista), N1 og Bakkavör. Auk þess átti bankinn stóran hlut í HB Granda og gríðarlegt magn fasteigna, svo fátt eitt sé nefnt.
Í byrjun desember var greint frá því að Fjármálaeftirlitið hefði sektað Arion banka um 30 milljónir króna fyrir að hafa brotið gegn lögum um verðbréfaviðskipti. Það gerði bankinn með því að selja hlutabréf sín í Högum hf. árið 2011 á sama tíma og bankinn bjó yfir innherjaupplýsingum um Haga. Arion banki segist sannfærður um að hafa farið að lögum.
Salan á hlutum í Símanum
Þá vakti sala Arion banka á hlut sínum í Símanum til valina aðila fyrir almennt útboð hans í fyrra mikla athygli og reiði í samfélaginu. Fyrst keypti hópur stjórnenda Símans og meðfjárfestar þeirra fimm prósent hlut í félaginu á gengi sem var mun lægra en útboðsgengi reyndist síðan vera, eða 2,5 krónur á hlut. Sá hópur má ekki selja sinn hlut fyrr en í byrjun árs 2017. Skömmu áður en útboðið fór fram fékk síðan hópur ríkustu viðskiptavina einkabankaþjónustu og markaðsviðskipta Arion banka að kaupa fimm prósent hlut. Sá hópur var valin út frá því hversu umfangsmikil viðskipti þeirra voru við bankann. Hópurinn fékk að kaupa hluti í Símanum á 2,8 krónur. Hann mátti selja hlutina 15. janúar síðastliðinn. Þá hafði virði hlutarins hækkað um 343 milljónir króna.
Arion banki varði framan af ákvörðun sína um að selja báðum þessum hópum hluti í Símanum áður en útboð fór fram. Halldór Bjarkar skrifaði grein í Morgunblaðið 13. október þar sem kallaði gagnrýni á hana „eftiráspeki“. Í greininni sagði m.a. „Þeir sem gagnrýna mikinn hagnað af þessari fjárfestingu horfa fram hjá því að ekki er um innleystan hagnað að ræða og ómögulegt að sjá fyrir hvert hlutabréfaverðið verður.“
Viðurkenndu mistök eftir mikla gagnrýni
Tíu dögum síðar sendi Arion banki frá sér tilkynningu þar sem bankinn viðurkenndi að gagnrýni á söluna til vildarviðskiptavina hefði verið réttmæt. Bankinn sagði að ekki hafi verið að „veita viðskiptavinum afslátt frá verðinu heldur[...]að gefa þeim kost á að kaupa nokkru stærri hlut en ella[...]Sú gagnrýni að ekki hafi allir setið við sama borð hefur ekki farið framhjá stjórnendum bankans. Ekki var heppilegt að selja til viðskiptavina bankans svo skömmu fyrir útboðið á gengi sem svo reyndist nokkuð lægra en niðurstaða útboðsins. Bankinn vanmat hina miklu eftirspurn sem raun varð á. Þessi tilhögun er til skoðunar í bankanum og verður tekið mark á gagnrýninni“.Arion banki taldi hins vegar, og telur enn, að salan á fimm prósent hlut til stjórnenda Símans og meðfjárfesta þeirra hafi verið réttmæt.
Á milli þess sem að grein Halldórs Bjarkars í Morgunblaðinu birtist og fréttatilkynning Arion banka þar sem mistök voru viðurkennd var send út hafði salan á hlutum í Simanum verið harðlega gagnrýnd í samfélaginu. Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra sagði söluna vera klúður sem engin þolinmæði væri fyrir í samfélaginu. Aðrir viðskiptavinir í einkabankaþjónustu og markaðsviðskiptum hjá bankanum, sem fengu ekki að kaupa í Símanum á sérkjörum, voru ekki síður ósáttir með að hann sé að mismuna sínum eigin viðskiptavinum með þessum hætti.
Samkomulag milli Halldórs Bjarkars og bankastjórans
Halldór Bjarkar hefur einnig verið töluvert í sviðsljósinu vegna þess að hann hefur verið lykilvitni í nokkrum málum sérstaks saksóknara gegn fyrrum æðstu stjórnendum Kaupþings. Í sýknudómi héraðsdóms í svokölluðu CLN-máli, sem féll í vikunni, kom meðal annars fram að ósamræmi hefði verið á milli skýrslugjafar Halldórs Bjarkar á meðan að á rannsókn málsins stóð og svo hins vegar fyrir dómi og að það ósamræmi yrði að hafa í huga þegar sönnunargildi frásagnar hans væri metið. Þá ásakaði Hreiðar Már Sigurðsson, fyrrum forstjóri Kaupþings og einn sakborninga í CLN-málinu, Halldór Bjarkar um að hafa stundað innherjaviðskipti í hruninu við málflutning málsins. Halldór Bjarkar hefur neitað þeim ávirðingum staðfastlega og sagt þær rangar. Heimildir Kjarnans herma að aðkoma eða frammistaða Halldórs Bjarkars sem vitnis í ofangreindum málum hafi ekkert að gera með starfslok hans.
Halldór Bjarkar tók við starfi framkvæmdastjóra fjárfestingarbankasviðs Arion banka í september 2011.Á árunum 2010 til 2011 var hann framkvæmdastjóri fyrirtækjaþjónustu Arion banka. Árið 2009 vann hann fyrir skilanefnd Kaupþings sem framkvæmdastjóri yfir eignasafni bankans á Norðurlöndum. Á árunum 2005 til 2008 starfaði Halldór á útlánasviði Kaupþings þar sem hann bar ábyrgð á útlánum á Norðurlöndunum.
Aðspurður um hvort að ákvörðun Fjármálaeftirlitsins í desember eða gagnrýnin vegna sölu Arion banka á hlutum í Símanum hafi vigtað inn í starfslok hans segir Halldór Bjarkar ýmsa þætti hafa haft áhrif. Starfslokin hafi verið samkomulag milli hans og Höskuldar Ólafssonar, bankastjóra Arion banka.