„Undanfarin misseri hefur fylgi við Samfylkinguna verið alls óviðunandi. Núverandi forystu Samfylkingarinnar hefur ekki tekist að skapa traust kjósenda á flokknum.“
Þetta kemur fram í tilkynningu frá Samfylkingarfólki á Akueyri, en í henni segir að til að ná flokknum upp úr „djúpri lægð“ þurfi flokkurinn að boða til landsfundar fyrir vorið.
„Þar gefist forystunni tækifæri til að endurnýja umboð sitt eða nýr formaður og forysta verði kjörin. Það má ekki seinna vera til að nýrri forystu gefist tími til að undirbúa málefni, efla starf flokksins og stuðla að endurnýjun fyrir næstu alþingiskosningar,“ segir í tilkynningunni.
Samfylkingin á Akureyri hvetur jafnframt önnur samfylkingarfélög til að taka undir þessa ályktun, að því er segir í tilkynningu. „Í stöðu eins og nú er uppi verða almennir flokksmenn að láta til sín taka þegar forystunni hefur mistekist að halda baráttumálunum á lofti og knýja fram nauðsynlegar þjóðfélagsbreytingar fyrir almenning á Íslandi,“ segir í tilkynningunni.
Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir er ein þeirra sem lýst yfir áhyggjum sínum vegna stöðu Samfylkingarinnar og sagt hana vera óásættanlega, hálfgert „lömunarástand“ ríki í flokknum. Árni Páll Árnason, formaður, ætlar ekki að víkja og segir stöðu flokksins ekki tengjast hans persónu. Hann sé þó til í að endurnýja umboðið, með opinni kosningu flokksmanna.