Smásölurisinn Hagar, sem rekur meðal annars Bónus og Hagkaup, ætlar að skila neytendum þeim fjármunum sem félaginu voru dæmdir í Hæstarétti í janúar vegna ólögmætrar gjaldtöku ríkissjóðs af innfluttum landbúnaðarvörum. Alls var Högum dæmdar 245 milljónir króna auk vaxta en félagið hefur enn ekki fengið greiðsluna þrátt fyrir að dómur Hæstaréttar hafi fallið 21. janúar síðastliðinn.
Í frétt á heimasíðu Haga vegna þessa segir að afstaða félagsins til þess hvernig fjármununum verði ráðstafað hafi ávallt legið fyrir. „Þeim fjármunum verður skilað til viðskiptavina félagsins í gegnum lægra vörurverð. Viðskiptavinir félagsins munu njóta þessara fjármuna í lægra vöruverði en félagið þarf að fara yfir álitamál um framkvæmdina, meðal annars m.t.t. samkeppnislaga. Félagið mun kynna sérstaklega með hvaða hætti vöruverð verður lækkað til viðskiptavina Bónus og Hagkaups.“
Hæstiréttur dæmdi íslenska ríkið til að endurgreiða þremur aðilum: Högum, Innnes og Sælkeradreifingu alls 509 milljónir króna auk vaxta vegna tollkvóta sem félögin greiddu fyrir til að geta flutt inn til landsins landbúnaðarafurðir. Hæstiréttur komst að þeirri niðurstöðu að gjaldtaka ríkisins hefði verið ólögmæt, að fyrirtækin hefðu orðið fyrir tjóni vegna hennar og að álagningin hefði haft neikvæð áhrif á rekstur fyrirtækjanna.