Landsbankinn hefur farið fram á það við stjórnendur Borgunar að þeir svari því hvaða upplýsingar hafi legið fyrir hjá fyrirtækinu eða stjórnendum þess um hvað það ætti rétt á að fá í sinn hlut ef Visa Inc. myndi kaupa Visa Europe, áður en Landsbankinn seldi þeim og meðfjárfestum þeirra hlut sinn í fyrirtækinu. Það gerðist í nóvember 2014. Auk þess hefur Landsbankinn farið fram á að vita hversu stór hluti hennar verði rakinn til rekstrarsögu fyrirtækisins áður en Landsbankinn seldi 31,2 prósent hlut sinn. Þetta kemur fram í Morgunblaðinu í dag.
Blaðið greindi frá því í gær að nýlegt verðmat KPMG á Borgun sýndi að virði félagsins væri 19 til 26 milljarðar króna. Þegar Landsbankinn seldi stjórnendum Borgunar og meðfjárfestum þeirra 31,2 prósent hlut sinn í fyrirtækinu í nóvember 2014 var hann seldur á 2,2 milljarða króna, og heildarvirði Borgunar á þeim tíma því um sjö milljarðar króna miðað við það verð. Hluturinn sem Landsbankinn seldi er því nú metinn á sex til átta milljarða króna og hefur því hækkað um 3,8 til 5,8 milljarða króna á því rúma ári sem liðið er frá því að ríkisbankinn seldi hann.
Borgun sendi frá sér yfirlýsingu um hádegisbil í dag, laugardaginn 6. febrúar, þar sem fyrirtækið staðfestir að það hafi móttekið fyrirspurn frá Landsbankanum varðandi þær upplýsingar sem lágu fyrir við sölu bankans á hlut í Borgun árið 2014. „Í bréfinu eru lagðar fram nokkrar sjálfsagðar spurningar um ferlið og verður bréfinu svarað eins fljótt og auðið er.“
Sögðu að sex til átta prósent hefði farið til Landsbankans
Kjarninn beindi svipuðum spurningum til stjórnenda Borgunar í lok janúar og Landsbankinn hefur nú sent þeim. Í svörum þeirra kom fram að Landsbankinn hefði fengið milli sex og átta prósent af hlutdeild Borgunar í söluandvirði Visa Europe ef fyrirvari hefði verið um greiðslur vegna kaupa Visa Inc. á Visa Europe áður en bankinn seldi hlut sinn í Borgun.
Hlutfallið miðast við umfang erlendra Visa-viðskipta Borgunar í lok árs 2013, en í viðræðum um sölu og á 31,2 prósenta hlut Landsbankans í Borgun og kynningum vegna hennar var stuðst við ársreikning þess árs. Viðræðurnar hófust í mars 2014 og þeim lauk seint í nóvember saman ár. Auk þess var gert grein fyrir framtíðarvaxtaráformum Borgunar í þeim kynningum sem haldnar voru fyrir stjórnendur Landsbankans.
Rekstur Borgunar hefur gengið afar vel undanfarin ár. Borgun hagnaðist um 1,3 milljarða króna á árinu 2014. Sá hagnaður bætist við 993 milljón króna hagnað Borgunar á árinu 2013. Samtals hagnaðist Borgun því um 2,3 milljarða króna á tveimur árum, sem er aðeins meira en Eignarhaldsfélagið Borgun, félag stjórnendanna og meðfjárfesta þeirra, greiddi fyrir 31,2 prósenta hlut Landsbankans í Borgun. Á grundvelli þessa góða reksturs greiddu eigendur Borgunar sér út 800 milljónir króna í arð í febrúar 2015, tæpum þremur mánuðum eftir að ríkisbankinn seldi hlut sinn í fyrirtækinu.
Miðað við yfirlýsingar stjórnenda Borgunar þá má ætla að mikill vöxtur fyrirtækisins erlendis í fyrra hafi skilað mjög góðri afkomu á árinu 2015. Síðan þá hefur umfang erlendra Visa-viðskipta Borgunar aukist gríðarlega, sérstaklega á árinu 2015. Sú aukning hefur skilað því að hlutdeild Borgunar í söluvirði Visa Europe, sem áætlað er um þrjú þúsund milljarðar króna, hefur aukist verulega. Ekki liggur nákvæmlega ljóst fyrir hversu mikið mun falla fyrirtækinu í skaut, samkvæmt svörum stjórnenda þess. Ljóst er þó að Borgun og Valitor, það íslenska greiðslufyrirtæki sem hefur verið með mest umsvif í Visa-viðskiptum undanfarna áratugi, fá á annan tug milljarða króna í sinn hlut þegar viðskiptin verða kláruð.
Fréttin var uppfærð klukkan 11:55 með viðbótarupplýsingum um viðbrögð Borgunar.