Breska tónlistarkonan PJ Harvey mun spila á Iceland Airwaves hátíðinni í haust. Þetta kemur fram í myndbandi sem aðstandendur hátíðarinnar, sem fer fram 2-6. nóvember næstkomandi, birtu á Youtube í morgun þar sem fyrstu listamennirnir sem spila munu á hátíðinni eru kynntir.
Á meðal annarra listamanna sem munu spila er breska hljómsveitin Lush, Reykjavíkurdætur, Mr. Silla, Axel Flóvent, Mammút, Sturla Atlas og Múm & Kronos Quartet.
PJ Harvey mun gefa út sína fyrstu plötu frá árinu 2011 í apríl næstkomandi. Hún mun heita The Hope Six Demolition Project. Síðasta plata hennar, Let England Shake, hlaut frábæra dóma, var valin plata ársins af alls 16 tónlistarblöðum eða -síðum og fékk meðal annars hin eftirsóttu Mercury verðlaun. Harvey hefur alls fjórum sinnum verið tilnefnd til verðlaunanna og hefur unnið þau tvisvar. Engin annar listamaður hefur verið tilnefndur til þeirra jafn oft. Sólóferill hennar spannar rúmlega tvo áratugi og Rolling Stone valdi hana listamann ársins árið 1995. Ári síðar vakti samstarf hennar og Nick Cave and The Bad Seeds mikla athygli, en hún söng dúett með Cave í laginu Henry Lee á plötunni Murder Ballads. Hún var einnig á meðal þeirra sem sungu í í laginu Death is Not the End eftir Bob Dylan, sem var að finna á sömu plötu.