Landsbankinn segir að stjórnendur Borgunar hafi ekki upplýst sig um að fyrirtækið ætti rétt til greiðslna vegna valréttar í tengslum við samruna Visa Inc. og Visa Europe ef hann yrði virkjaður. Þær greiðslur munu líkast til hlaupa á milljörðum króna og spila stóra rullu í því að heildarvirði Borgunar, sem var metið á um sjö milljarða króna þegar Landsbankinn seldi 31,2 prósent hlut sinn í fyrirtækinu í nóvember 2014, er nú talið vera allt að 26 milljarðar króna.
Landsbankinn vill fá að vita hvort að stjórnendur Borgunar hafi vitað um mögulegan rétt til greiðslna þegar bankinn seldi þeim, og meðfjárfestum þeirra, hlut sinn í fyrirtækinu á 2,2 milljarða króna fyrir rúmu ári síðan. Stjórnendur Borgunar hafi í raun ekki svarað þeim spurningum sem Landsbankinn hafi leitað svara hjá þeim um í þeim yfirlýsingum sem þeir hafi sent frá sér. Því hefur Landsbankinn, sem er nánast að öllu leyti í ríkiseigu, farið fram á að stjórnendur Borgunar geri það í síðasta lagi í dag.
Spurningarnar eru lagðar fram í bréfi sem sent var á forstjóra og stjórnarformann Borgunar á föstudag. Það má lesa hér. Steinþór Pálsson, bankastjóri Landsbankans, er skrifaður fyrir bréfinu.
Gæti farið í lögfræðilegan feril
Um liðna helgi var greint frá því að Landsbankinn hefði sent bréf til Borgunar þar sem farið var fram á það við stjórnendur fyrirtækisins að þeir svari því hvaða upplýsingar hafi legið fyrir hjá fyrirtækinu eða stjórnendum þess um hvað það ætti rétt á að fá í sinn hlut ef Visa Inc. myndi kaupa Visa Europe, áður en Landsbankinn seldi þeim og meðfjárfestum þeirra hlut sinn í fyrirtækinu. Auk þess hefur Landsbankinn farið fram á að vita hversu stór hluti hennar verði rakinn til rekstrarsögu fyrirtækisins áður en Landsbankinn seldi 31,2 prósent hlut sinn. .
Landsbankinn gaf stjórnendum Borgunar frest þangað til á þriðjudag til að svara spurningum bankans. Steinþór Pálsson, bankastjóri Landsbankans, sagði í samtali við RÚV um helgina að hann tryði því að menn hefðu starfað af heilindum í söluferlinu.„Það er það sem maður trúir, en við viljum sannreyna það með þessari beiðni okkar til þeirra. En í öllum þessum samtölum okkar við Visa Europe, við Borgun, við Valitor og Arion banka líka, þá kom þetta aldrei upp að það væri hægt að ætla að þarna væru verðmæti á ferðinni.“
Ef það komi í ljós að upplýsingum hafi verið haldið frá Landsbankanum í söluferlinu á hlut hans í Borgun muni bankinn leita réttar síns.„Þá er málið mjög alvarlegt, þá fer þetta bara í lögfræðilegan feril. Þá munum við gæta okkar hagsmuna með þeim aðferðum sem hægt er,“ segir Steinþór í samtali við fréttastofu RÚV.
Sögðu bankann hafa haft aðgang að öllum gögnum
Stjórnendur Borgunar sendu frá sér yfirlýsingu vegna spurninga Landsbankans í gær. Þar segir að Landsbankinn hafi haft aðgang að öllum gögnum í tengslum við sölu á hlut bankans í fyrirtækinu í nóvember 2014. Útbúið hafi verið sérstakt gagnaherbergi þar sem Landsbankinn og aðrir aðilar máls höfðu fullan aðgang að ítarlegum upplýsingum um Borgun og rekstur félagsins. „Þar lágu fyrir upplýsingar um aðild og eignarhlut Borgunar í Visa Europe sem og upplýsingar um valréttarákvæði milli Visa Inc. og VISA Europe.“ Þetta kemur fram í yfirlýsingu sem Borgun hefur sent frá sér.
Þar segir einnig að Borgun hafi aldrei búið aldrei yfir upplýsingum um hvort, hvenær né á hvaða verði Visa Europe yrði selt, fyrr en salan var gerð opinber þann 2. nóvember 2015. Vænt hlutdeild Borgunar í söluandvirði á VISA Europe hafi ekki orðið ljós fyrr en 21. desember sama ár. „Fyrir þann tíma hafði Borgun engar forsendur til þess að meta eignarhlut sinn í Visa Europe á annan hátt en gert var.“
Borgun segist enn fremur að fyrirtækið muni veita Landsbankanum allar þær upplýsingar sem hann óski eftir sem tengist söluferli hlutar Landsbankans í Borgun vegna fyrirspurna Bankasýslu ríkisins og annarra opinberra aðila.
Þurfa að svara í dag
Í tilkynningu sem Landsbankinn birti í gærkvöldi á heimasíðu sinni segir að við sölu á hlut sínum í Borgun hafði Landsbankinn enga vitneskju um að Borgun ætti yfirhöfuð rétt til greiðslna vegna valréttar í tengslum við samruna Visa Inc. og Visa Europe, kæmi til þess að hann yrði virkjaður.
Bankinn segir að í yfirlýsingu Borgunar sem send hafi verið fjölmiðlum í gær hafi spurningum Landsbankans um málið ekki verið svarað. „Þar kemur ekki fram hvort Borgun eða stjórnendur þess hafi vitað að fyrirtækið ætti rétt til greiðslna vegna valréttarins. Engin svör hafa borist beint til Landsbankans en bankinn væntir þess að þau berist[...]þriðjudaginn 9. febrúar, líkt og óskað var eftir.“
Svör Borgunar við fyrirspurn Landsbankans verða meðal annars notuð til að svara þeim spurningum sem Bankasýsla ríkisins hefur beint til bankans vegna Borgunarmálsins. Landsbankinn tiltekur í bréfi sínu til Borgunar að svörin verði mögulega gerð opinber.