Töluverður uppgangur er í íslenska hagkerfinu í augnablikinu og útlit fyrir að sú staða haldist áfram næstu mánuði. Laun eru að hækka hratt, verðbólga er lág, 2,1 prósent, fasteignaverð á hraðri uppleið og einkaneysla sömuleiðis. Helsta ástæða þess að hagvöxtur var 4,1 prósent í fyrra, samkvæmt bráðabirgðatölum, en ekki 4,6 prósent eins og spá Seðlabanka Íslands gerði ráð fyrir, var mikil aukning í einkaneyslu og innflutnings henni samhliða. Almenningur virðist því vera að njóta þess að vera með meira milli handanna nú en fyrir ári síðan. Þrátt fyrir að einkaneyslan hafi aukist mikið, þá sýna tölur að skuldir heimilanna hafa lækkað og sparnaður þannig aukist.
Þetta er meðal þess sem fram kemur í fyrsta hefti Peningamála á þessu ári, sem kom út í dag, samhliða vaxtaákvörðun Seðlabanka Íslands. Þá var stýrivöxtum haldið óbreyttum í 5,75 prósentum.
Lágt olíuverð hjálpar Íslandi
Það sem helst hefur haldið verðbólgu niðri á Íslandi að undanförnu, að mati Seðlabanka Íslands, er mikil lækkun á olíuverði, og hrávöruverði almennt, á alþjóðamörkuðum. Þá hafa launahækkanir ekki þrýst verði upp ennþá að neinu ráði, en Seðlabankinn gerir þó ráð fyrir að verðbólga fari hækkandi og verði komin yfir þrjú prósent síðar á árinu. Í Peningamálum kemur enn fremur fram að gert sé ráð fyrir að hráolíuverð muni hækka í hægum skrefum á þessu ári og verði á bilinu 44 til 58 Bandaríkadalir á tunnu í byrjun næsta árs. Að undanförnu hefur það sveiflast í kringum 30 Bandaríkjadali á tunnu, en þegar þetta er skrifað er það tæplega 28 Bandaríkjadalir á markaði í Bandaríkjunum og rúmlega 30 þegar horft er til Norðursjávarolíunnar.
Vinnumarkaður stækkar
Það er til marks um kraft í efnahagslífinu um þessar mundir að fólki á vinnumarkaði fjölgaði um 5.300 í fyrra. Á fjórða ársfjórðungi 2015 voru 189.200 manns á aldrinum 16–74 ára á vinnumarkaði, samkvæmt tölum sem Hagstofa Íslands birti í síðustu viku. Af þeim voru 183.300 starfandi og 5.900 án vinnu og í atvinnuleit. Atvinnuþátttaka mældist 81,6 prósent, hlutfall starfandi mældist 79 prósent og atvinnuleysi var 3,1 prósent.
Aðhald þarf að auka
Þrátt fyrir að bjart sé yfir hagkerfinu þessi misserin, nánast á alla mælikvarða, þá segir Peningastefnunefndin að auka þurfi aðhald peningastefnunnar, þá væntanlega með vaxtahækkunum, vegna vaxandi innlends verðbólguþrýstings. Þar skipta umsamdar launahækkanir einna mestu máli, miðað við kjarasamninga á vinnumarkaði má gera ráð fyrir að laun hækki, hjá nær öllum stéttum, um 20 til 30 prósent á næstu tveimur til þremur árum. Hversu hratt þetta um gerast ræðst af því hvernig framvindan verður í hagkerfinu.
Áframhaldandi hækkanir
Fasteignaverð á höfuðborgarsvæðinu hækkaði um 9,4 prósent á árinu 2015 og kaupsamningum fjölgaði um 17 og hálft prósent. Á sama tíma hækkaði leiguverð um 6 prósent. Mikil hækkun fasteignaverðs á síðasta ári virðist í „ágætu samræmi við þróun byggingarkostnaðar og tekna“, segir í Peningamálum, og horfur eru á áframhaldandi kröftugri hækkun húsnæðisverðs á næstu misserum.