Iða Brá Benediktsdóttir hefur verið ráðin framkvæmdastjóri fjárfestingarbankasviðs Arion banka. Iða Brá tekur við starfinu af Halldóri Bjarkar Lúðvígssyni sem nýverið hætti störfum hjá bankanum.
Iða Brá hefur starfað hjá Kaupþingi og Arion banka frá árinu 1999 í ýmsum störfum. Húnvar lengi forstöðumaður í fjárstýringu bankans, stýrði samskiptasviði hans um skeið eftir hrun og undanfarin ár hefur hún gegnt starfi forstöðumanns einkabankaþjónustu Arion banka. Hún hefur setið í stjórnum nokkurra fyrirtækja fyrir hönd bankans og sat í sérfræðinganefnd um afnám verðtryggingar fyrr á þessu kjörtímabili. Iða Brá er viðskiptafræðingur frá Háskóla Íslands. Hún er með MSc í fjármálum frá Rotterdam Shcool of Management í Hollandi og með próf í verðbréfaviðskiptum.
Ýmislegt spilaði inn í starfslok Halldórs Bjarkars
Greint var frá því þann 28. janúar síðastliðinn að samið hefði verið um starfslok Halldór Bjarkars Lúðvígssonar hjá Arion banka. Halldór Bjarkar sagði í samtali við Kjarnann að þetta hafi verið ákvörðun sem hafi verið að gerjast í nokkurn tíma. Þegar að úrslausn á aðkomu Arion banka að Bakkavör, verkefni sem hann hafði unnið að árum saman, lauk í byrjun viku hafi Halldór Bjarkar talið að það væri góður tími til að skipta um vettvang. „Stærstu úrlausnarverkefnin sem ég hef leitt fyrir bankann er að mestu lokið.“Kjarninn fjallaði ítarlega um söluna á hlut Arion banka og íslenskra lífeyrissjóða í Bakkavör í fréttaskýringu fyrir nokkru.
Halldór Bjarkar var síður en svo verið óumdeildur í störfum sínum, en hann hefur leitt endurskipulagningu og sölu á þeim fyrirtækjum og eignarhlutum sem Arion banki fékk í vöggugjöf eftir hrunið. Á meðal þeirra eru smásölurisinn Hagar, Síminn, Klakki (áður Exista), N1 og Bakkavör. Auk þess átti bankinn stóran hlut í HB Granda og gríðarlegt magn fasteigna, svo fátt eitt sé nefnt.
Í byrjun desember var greint frá því að Fjármálaeftirlitið hefði sektað Arion banka um 30 milljónir króna fyrir að hafa brotið gegn lögum um verðbréfaviðskipti. Það gerði bankinn með því að selja hlutabréf sín í Högum hf. árið 2011 á sama tíma og bankinn bjó yfir innherjaupplýsingum um Haga. Arion banki segist sannfærður um að hafa farið að lögum.
Þá vakti sala Arion banka á hlut sínum í Símanum til valina aðila fyrir almennt útboð hans í fyrra mikla athygli og reiði í samfélaginu.
Aðspurður um hvort að ákvörðun Fjármálaeftirlitsins í desember eða gagnrýnin vegna sölu Arion banka á hlutum í Símanum hafi vigtað inn í starfslok hans sagði Halldór Bjarkar ýmsa þætti hafa haft áhrif. Starfslokin hafi verið samkomulag milli hans og Höskuldar Ólafssonar, bankastjóra Arion banka.