Peningastefnunefnd Seðlabanka Íslands hefur ákveðið að halda stýrivöxtum bankans óbreyttum og verða þeir því áfram 5,75 prósent. Í yfirlýsingu Peningastefnunefndar segir að hagvöxtur í fyrra sé talinn hafa verið minni en áætlað var í nóvemberspá bankans eða 4,1 prósent í stað 4,6 prósent. Horfur eru á svipuðum hagvexti í ár eða 4,2 prósent. Það sé eins prósentu meiri vöxtur en spáð var í nóvember og skýrist frávikið af horfum um meiri vöxt einkaneyslu en þá var gert ráð fyrir enda útlit fyrir að laun hækki meira, atvinna vaxi hraðar og verðbólga verði minni.
Þetta kemur fram í yfirlýsingu Peningastefnunefndar sem birt var í morgun.
Verðbólga yfir þrjú prósent í lok árs
Í yfirlýsingu nefndarinnar segir að útlit sé fyrir að framleiðsluslaki hafi horfið síðastliðið ár og að útlit sé fyrir vaxandi spennu í hagkerfinu. „Hækkun launa langt umfram verðbólgumarkmið og framleiðnivöxt eykur verðbólguþrýsting en alþjóðleg þróun orku- og hrávöruverðs og gengisþróun krónunnar vega á móti. Verðbólga hefur verið minni en spáð var í nóvember og horfur eru á að svo verði áfram fram á næsta ár. Verðhjöðnun á alþjóðlegum vörumörkuðum gæti hins vegar stöðvast og snúist við á næstu misserum. Samkvæmt alþjóðlegum spám er búist við að það gerist er líða tekur á þetta ár." Vegna þessa gerir Seðlabankinn ráð fyrir að verðbólga á Íslandi verði komin yfir þrjú prósent í árslok 2016 og í fjögur prósent ári síðar.
Styrking krónunnar og alþjóðleg verðlagsþróun hafi veitt svigrúm til að hækka stýrivexti hægar en áður var talið nauðsynlegt. „Það breytir hins vegar ekki því að miðað við spá Seðlabankans er líklegt að auka þurfi aðhald peningastefnunnar frekar á næstu misserum í ljósi vaxandi innlends verðbólguþrýstings. Hve mikið og hve hratt það gerist ræðst af framvindunni," segir í yfirlýsingu Peningastefnunefndar.
Áframhaldandi uppgangur
Greiningardeild Arion banka birti í gær Markaðspunkta þar sem fram kom að ýmsar vísbendingar bendi til þess að nokkur uppgangur hafi verið í hagkerfinu á síðasta ársfjórðungi ársins 2015 og að svo verði áfram til skemmri tíma hið minnsta. Atvinnuleysi hafi dregist hraðar saman en spár gerðu ráð fyrir og hafi verið 3,1 prósent í lok árs. Þá hafi neysla ferðamanna í krónum talið aukist nokkuð án þess að ferðamönnum hafi fjölgað á sama tíma og kortavelta Íslendinga bæði hérlendis og erlendis hefur aukist. Engar vísbendingar eru um að áframhaldandi samdráttur verði í íbúðafjárestingum. Auk þess hafa miklar launahækkanir samhliða einstaklega hagfelldu verðbólguumhverfi gert það að verkum að kaupmáttur launa jókst um 6,7 prósent milli ára á síðasta ársfjórðungi.
Hagstofan mun birta tölur um landsframleiðslu á síðasta ársfjórðungi ársins 2015 10. mars næstkomandi.