Eigendur gamla Landsbankans, LBI hf., hafa boðið Kolbeini Árnasyni, framkvæmdastjóra Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi, sæti í stjórn félagsins. LBI tók við eignum slitabús gamla Landsbankans eftir að nauðasamningur hans gekki í gildi. Greint er frá þessu í Fréttablaðinu í dag og þar staðfestir Kolbeinn að honum hafi verið boðið starfið.
Hann yrði þá þriðji Íslendingurinn sem mun taka sæti í stjórn þeirra félaga sem taka við eignum föllnu bankanna eftir nauðasamninga þeirra. Lögmennirnir Jóhannes Rúnar Jóhannsson, sem sat í slitastjórn Kaupþings, og Óttar Pálsson, sem eitt sinn stýrði Straumi fjárfestingabanka, hafa báðir verið beðnir um að setjast í stjórn Kaupþings. Engin Íslendingur mun hins vegar sitja í stjórn Glitnis.
Kolbeinn hefur ekki verið formlega skipaður í stjórn LBI þar sem fyrsti hluthafafundur félagsins eftir að nauðasamningar gamla Landsbankans tóku gildi hefur ekki verið haldinn.
Kolbeinn er lögfræðingur og starfaði sem framkvæmdastjóri lögfræðisviðs slitabús Kaupþings á árunum 2008 til 2013. Hann starfaði einnig hjá Kaupþingi áður en skilanefnd var skipuð yfir bankann. Kolbeinn var í fréttum fyrr í þessari viku vegna endurupptökubeiðni Ólafs Ólafssonar, Sigurðar Einarssonar og Hreiðars Más Sigurðssonar í Al Thani-málinu. Mennirnir töldu að tveir dómarar málsins í Hæstarétti hefðu verið vanhæfir vegna þess að synir þeirra hefðu unnið fyrir slitastjórn Kaupþings, sem hefði haft beina fjárhagslega hagsmuni af því að sakfelling fengist í málinu. Annar þeirra dómara var Árni Kolbeinsson, faðir Kolbeins. Niðurstaða endurupptökunefndar varð sú að Árni hefði ekki verið vanhæfur vegna tengsla sinna við Kolbein. Öðrum kröfum hinna dæmdu manna um endurupptöku var einnig hafnað.