Evgeny Lebedev, eigandi og útgefandi breska dagblaðsins the Indenpendent, hefur tilkynnt að prentun og útgáfu blaðsins, og helgarblaðsins Independent on Sunday, verði hætt á næstunni. Síðasta eintakið af the Independent mun koma út 26. mars næstkomandi. Þar með lýkur 30 ára sögu blaðsins.
Samkvæmt frétt the Guardian um málið segir Lebedev að breytingarnar séu liður í því að færa áherslur the Independent frá prenti til stafrænnar miðlunar. Prentmiðlar séu í hnignun en stafræn miðlun í miklum vexti. Fréttavefsíða the Independent, sem verður rekin áfram, er nú með 58 milljónir mánaðarlega notendur og samkvæmt Lebedev skilar hún hagnaði. Hann reiknar með því að tekjur hennar muni vaxa um 50 prósent á þessu ári. „Dagblaðaiðnaðurinn er að breytast og sú breyting er drifin áfram af lesendum. Þeir eru að sýna okkur að framtíðin sé stafræn. Með þessari ákvörðun þá varðveitum við Independent vörumerkið og hún gerir okkur kleift að fjárfesta áfram í hágæða ritstjórnarefni sem laðar sífellt fleiri lesendur að vefsíðunum okkar.“
Á næstunni verða umsvif the Independent á vefinu aukin mikið til að reyna að gera Independent.co.uk að alþjóðlegu stafrænu fréttavörumerki. Auk þess verður sett í loftið áskriftar-app. Ekki hefur verið tilgreint hversu margir þeirra 150 starfsmanna sem starfa á prentmiðlum Independent missa vinnuna.
Lebedev hefur fjárfest gríðarlega í breskum fjölmiðlum á undanförnum árum. Frá því í september 2014 hefur hann keypt miðla fyrir um 100 milljónir punda, um 18,5 milljörðum króna. Þar af fóru um 65 milljónir punda, um tólf milljörðum króna, í að kaupa the Independent og tengda miðla.
Lebedev sendi starfsfólki sínu bréf vegna breytinganna. Það má lesa hér.