Formaður fjárlaganefndar, Vigdís Hauksdóttir, segist vita um mörg dæmi þess að lífvænleg fyrirtæki hafi verið tekin af eigendum sínum, skuldhreinsuð og færð í hendur annarra án upplýstrar umræðu. Oftar en ekki hafi þær eignir síðan margfaldast í verði. Þá sé ljóst að það hafi verið tekin stefnumarkandi ákvörðun um að rukka heimili og fyrirtæki upp í topp samhliða því að keyra einhver fyrirtækjanna í gjaldþrot og færa öðrum eignarhald þeirra.
Í viðtali við Morgunblaðið segir hún: „Það voru mörg „Borgunarmálin" á síðasta kjörtímabili."
Vigdís hefur barist fyrir því að trúnaði af gögnum í fórum Alþingis um það þegar samið var við kröfuhafa Glitnis og Kaupþings um það þeir myndu fá meirihluta í Íslandsbanka og Arion banka árið 2009. Kröfuhafar Glitnis hafa síðan skilað Íslandsbanka til ríkisins sem hluta af stöðugleikaframlagsgreiðslu sinni. Vigdís segir að almenningur eigi skilið að fá að vita hvað hafi fari fram á síðasta kjörtímabili.
Vill rannsaka aðkomu alþjóðastofnana að endurreisn bankanna
Í viðtali við Morgunblaðið nefndir Vígdís engin dæmi um lífvænleg fyrirtæki sem hafi verið tekin af eigendum sínum með óbilgjörnum hætti. Þar ræðir hún hins vegar skort á aðgengi að gögnum um færslu nýju bankanna til kröfuhafa, sem var hluti af uppgjöri við þá vegna eigna sem færðar voru með handafli af ríkinu yfir til hinna nýju banka, og hið svokallaða Víglundarmál. Brynjar Níelsson alþingismaður gerði skýrslu um ásakanir Víglundar, sem snérust um að stjórnmálamenn, embættismenn og eftirlitsaðilar hafi framið lögbrot og haft af íslenskum fyrirtækjum og heimilum um 300 til 400 milljarða króna við endurreisn bankakerfisins á árinu 2009. Sú skýrsla kom út fyrir um ári og samkvæmt henni var útilokað að taka undir sum sjónarmið Víglundar og Brynjar segist sjálfur ekki taka undir ásakanir um að svikum og blekkingum gafi verið beitt til að gæta hagsmuna einhverra útlendinga.
Vigdís segir hins vegar að gögn málsins kalli á frekari rannsókn á tildrögum þess að bankarnir voru einkavæddir á síðasta kjörtímabili. „Fyrst og fremst legg ég áherslu á að það verði farið í rannsókn á einkavæðingunni hinni síðari, vegna þeirra gagna sem liggja til grundvallar og þeirra upplýsinga sem ég hef, sem eru bundin trúnaði. Það eitt og sér sýnir mér að það verði að rannsaka þessi mál."
Þá telur Vigdís einnig að það þurfi að rannsaka aðkomu Alþjóðagjaldeyrissjóðsins að þessum gjörningum. Þá ætti jafnframt að kanna tengslin á milli endurreisnar Landsbankans og Icesave-samninganna og tengslin við Evrópusambandsumsóknina.