Steinþór Pálsson, bankastjóri Landsbankans, hefur ekki íhugað að segja af sér vegna sölu bankans á hlut sínum í Borgun. Hann segir að það sé til skoðunar að kæra stjórnendur Borgunar, sem keyptu hlutinn, vegna sölunnar og að Fjármálaeftirlitið sé einnig að fara yfir málið. Þá sé einnig til skoðunar að rifta sölunni á hlutnum ef það sé mögulegt. Steinþór segir að honum þyki það sérstakt að stjórnendur Borgunar hafi ekki upplýst hann og Landsbankafólk um hvers virði valréttur fyrirtækisins vegna kaupa Visa Inc. á Visa Europe gæti verið þegar stjórnendurnir kynntu stöðu Borgunar fyrir Landsbankanum þegar salan fór fram. Þetta kom fram í viðtali við Steinþór í Kastljósi kvöldsins.
Þegar Landsbankinn seldi 31,2 prósent hlut sinn í Borgun í lok nóvember 2014 var heildarvirði fyrirtækisins metið á um sjö milljarða króna. Nýlegt mat á fyrirtækinu sýnir að virði þess sé allt að 26 milljarðar króna og ljóst að Borgun mun fá milljarða króna vegna kaupa Visa Inc. á Visa Europe.
Blekking er stórt orð
Steinþór var spurður að því hvort hann liti svo á að stjórnendur Borgunar, sem settu saman hópinn sem keypti hlut Landsbankans í fyrirtækinu, hefðu blekkt bankann í söluferlinu. Hann sagði það sterkt orð en að það hefði verið eðlilegt ef Landsbankanum hefði verið gerð grein fyrir þeirri mögulegu virðisaukningu sem fælist í valrétti Borgunar þegar staða fyrirtækisins var kynnt fyrir stjórnendum bankans. Það hafi hins vegar ekki verið gert.
Steinþór sagði að Landsbankinn hefði leitað til Visa Europe eftir upplýsingum um málið en fengið takmarkaðar upplýsingar. Ekkert í þeim hafi bent til þess að Borgun ætti rétt á neinum greiðslum vegna valréttarins.
Helgi Seljan, umsjónarmaður Kastljóss, spurði þá Steinþór hvort Landsbankamenn hefðu ekki spurt stjórnendur Borgunar beint um valréttinn þegar á söluferlinu stóð. Steinþór sagði að það hefði verið gert beint og að ekkert í kynningum stjórnenda Borgunar hefði bent til þess að fyrirtækið gæti fengið nokkuð út úr þessu. „Við vorum grandarlaus,“ sagði Steinþór.
Helgi benti þá á að upplýsingarnar sem Landsbankinn byggði á þegar hlutur hans í Borgun var seldur hafi allar komið frá aðilunum sem voru að kaupa hlutinn af bankanum. Hann spurði Steinþór af hverju óháðir aðilar hafi ekki verið fengnir til að taka út virði fyrirtækisins. Steinþór svaraði því til að slíkir aðilar hefðu einungis getað fengið upplýsingar hjá sömu aðilum, stjórnendum og stjórn Borgunar.
Ekki íhugað að hætta
Ljóst er að traust almennings og stjórnmálamanna í garð Landsbankans hefur beðið mikla hnekki vegna Borgunarmálsins. Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, skrifaði bréf til stjórnar Bankasýslu ríkisins í síðustu viku. Þar stóð m.a.: „Það er mat ráðherra að umræða undanfarinna vikna vegna sölu Landsbankans á hlut sínum í Borgun sé til þess fallin að skaða bankann. Því sé nauðsynlegt áður en lengra er haldið í því ferli að hvaðeina er máli skiptir og varðar sölu Landsbankans á Borgun verði upplýst og málið afgreitt með þeim hætti að traust til bankans og stjórnenda hans verði tryggt."
Steinþór sagðist sammála því sem Bjarni sagði í bréfinu og að það tap á trausti sem átt hafi sér stað sé mjög alvarleg staða. Hann sagðist hins vegar ekki hafa íhugað að hætta störfum og kallaði eftir því að fólk horfði á heildarmyndina, ekki afmarkað tilvik eins og söluna á Borgun. Undir hans stjórn hefði Landsbankinn farið frá því að starfa á skilyrtu starfsleyfi og að vera í mögulega miklum vandræðum vegna gengislánaendurgreiðslna í að vera með yfir 250 milljarða króna í eigið fé þrátt fyrir að vera búinn að greiða umtalsverðan arð. Á þessu ferðalagi hafi bankinn selt hlutabréf með um 50 milljarða hagnaði.