Kröfuhafar norska félagsins Havila Shiping ASA hafa hafnað áætlun um endurskipulagningu á skuldum þess, sem gerðu ráð fyrir því að lengt yrði umtalsvert í þeim. Félagið hafði gefið sér þangað til í gær, 15. febrúar, til að komast að niðutstöðu í málinu enda sjái það fyrir sér alvarlega fjárhagslega erfiðleika á tímabilinu 2016-2018“ vegna þeirrar niðursveiflu sem átt hafi sér stað á þjónustumarkaði við olíuiðnaðinn í Norðursjó. Þeir bankar sem lánað hafa Havila fé, þar á meðal íslensku bankarnir Íslandsbanki og Arion banki, studdu áætlunina.
Í tilkynningu til norsku Kauphallarinnar í morgun kom hins vegar fram að ekki hefði tekist að fá 2/3 hluta af óveðtryggðum skuldabréfaeigendum Havila til að samþykkja hana. Þess vegna verði öllum vaxtagreiðslum og greiðslum af höfuðstól lána hætt samstundis og hafist handa við að ræða við þá um samkomulag um greiðslustöðvun.
Virði Havila í Kauphöllinni hefur hríðfallið undanfarin misseri. Árið 2007 var virði hlutabréfa í félaginu 120 norskar krónur á hlut. Í dag er virðið 1,3 norskar krónur. Havila var fært á athugunarlista í norsku Kauphöllinni í morgun.
Havila hefur verið eitt af leiðandi félögum í þjónustu við olíuiðnaðinn í Norðursjó á undanförnum árum. Samstæðan á og rekur 27 þjónustuskip. Olíuvinnsla í Norðursjó hefur dregist gríðarlega saman á undanförnum misserum vegna lækkunar á heimsmarkaðsverði á olíu, sem hefur farið úr um 115 dölum sumarið 2014 í um 35 dali í dag. Þumalputtareglan er sú að heimsmarkaðsverð á olíu þurfi að vera í kringum 60 dali á tunnu til að vinnsla í Norðursjó borgi sig. Samhliða hefur þjónustumarkaðurinn sem Havila starfar á hrunið.
Eiga fé til að reka félagið fram á haust
Greiningaraðilinn DNB Markets hefur metið það sem svo að Havila geti rekið sig áfram fram á þriðja ársfjórðung yfirstandandi árs fyrir það fé sem til er í félaginu. Eftir það muni Havila skorta rekstrarfé til að halda áfram. DNB Markets telur ljóst að virði eigna Havila sé lægra en heildarumfang skulda félagsins.
Ola Beinnes Fosse, greinandi hjá DNB Markets, segir við norska vefinn Maritime.no að óveðtryggðir kröfuhafar ættu þá að eiga von á því að fá ekkert upp í kröfur sínar ef Havila fer í þrot. Þeir bankar sem hafi lánað félaginu, og eigi veð í eignum þess, ættu einnig að undirbúa sig fyrir tap ef eignir Havila verði seldar upp í skuldir.
Íslenskir bankar lánuðu Havila milljarða
Íslandsbanki og Arion banki eru báðir á meðal lánveitenda Havila. Í júlí 2014 lánaði Arion banki Havila 300 milljónir norskra króna, um 4,5 milljarða króna. Íslandsbanki hafði tekið þátt í sambankaláni til Havila upp á alls 475 milljónir norskra króna, rúmlega sjö milljarða króna, nokkrum mánuðum áður. Í fréttatilkynningu frá Íslandsbanka sem send var úr í lok árs 2013 vegna þess var haft eftir Vilhelm Má Þorsteinssyni, framkvæmdastjóra fyrirtækjasviðs Íslandsbanka, að þátttakan í sambankaláni til Havila væri mikilvægt skref í að auka þátttöku okkar í þjónustuiðnaði við olíu og gasleit á Norður Atlantshafi. „Íslandsbanki hefur getu til að lána til erlendra verkefna vegna sterkrar stöðu í erlendum gjaldeyri og styður þannig við frekari uppbyggingu íslenskra og erlendra fyrirtækja í atvinnugreinum þar sem bankinn hefur sérþekkingu.“
Þessir tveir bankar, sem eru annars vegar að öllu leyti í eigu íslenska ríkisins og hins vegar að hluta (ríkið á þrettán prósent hlut í Arion banka), eiga því umtalsvert undir að Havila muni geta borgað skuldir sínar.
DV leitaði eftir upplýsingum hjá báðum bönkunum fyrir mánuði síðan um hvort þeir hefðu farið fram á að floti eða aðrar eignir Havila yrðu veðsettar vegna lánveitinganna. Hvorki Íslandsbanki né Arion banki vildu upplýsa um það.