Einar Sveinsson, einn þeirra fjárfesta sem tóku þátt í kaupum á 31,2 prósent hlut Landsbankans í Borgun, segir að hann hafi aldrei rætt þau viðskipti við Bjarna Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, áður en gengið var frá þeim.
Þetta kemur fram í Fréttablaðinu í dag.
Einar er föðurbróðir Bjarna og þeir stunduðu saman viðskipti árum saman þar til að Bjarni hætti afskiptum að viðskiptalífinu til að einbeita sér að stjórnmálum í desember 2008. Félag Einars, Pei ehf., á samvæmt opinberum upplýsingum 19,71 prósent hlut í eignarhaldsfélaginu Borgun, sem keypti hlutinn í Borgun af Landsbankanum á 2,2 milljarða króna í nóvember 2014. Því má ætla að Pei, sem er endanlega í eigu félags í Lúxemborg sem Einar á, hafi greitt um 430 milljónir króna fyrir sinn hlut í Borgun í upphafi. Til viðbótar keypti Eignarhaldsfélagið Borgun tæplega 2,8 prósent hlut af félagi tólf stjórnenda Borgunar í ágúst 2015 á rúmlega 300 milljónir króna. Samtals á félagið í dag 29,38 prósent hlut í Borgun. Miðað við nýlegt verðmat KPMG á fyrirtækinu er heildarvirði þess 19-26 milljarðar króna og hlutur Eignarhaldsfélagsins Borgunar því um 5,6-7,6 milljarða króna virði. Hlutur Pei, félags Einars Sveinssonar, er því metinn á allt að 1,5 milljarð króna og virði hans hefur því aukist um allt að einn milljarð króna á rúmum fjórtán mánuðum.
Hélt ekki að skyldleiki við Bjarna myndi vekja upp tortryggni
Í Fréttablaðinu segir að skyldleiki Einars við Bjarna hafi vakið tortryggni. Einar segir í blaðinu í dag að hann hafi ekki látið frænda sinn vita af því að hann hygðist taka þátt í þessum viðskiptum. Raunar hafi hann aldrei rætt málið við Bjarna. Einar segir að hann hafi ekki haft áhyggjur af því að skyldleiki hans við Bjarna yrði til þess að málið yrði gert tortryggilegt og að hann hafi fyrst fengið upplýsingar um viðskiptin í nóvember 2014, eða í sama mánuði og gengið var frá þeim.
Bjarni hefur gagnrýnt söluna á hlut Landsbankans í Borgun harðlega í opinberri umræðu undanfarið.Í síðustu viku sendi Bjarni bréf til stjórnar Bankasýslu ríkisins, stílað á Lárus Blöndal formann stjórnar, vegna umræðu um sölu Landsbankans á hlut hans í Borgun. Í bréfinu segir Bjarni að komin sé upp „alvarleg“ staða þar sem Landsbankinn sé stærsta fjármálafyrirtæki landsins og verðmætasta félag íslenska ríkisins. Nauðsynlegt sé að hafa eigendastefnu í gildi sem byggi á gagnsæi og traustum ferlum, þegar kemur að eignasölu.