Sigurður Ingi Jóhannsson, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, og Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, skrifuðu í dag undir nýja búvörusamninga við íslenska bændur fyrir hönd íslenska ríkisins. Samningurinn er til tíu ára og bindur því næstu tvær ríkisstjórnir hið minnsta hvað varðar útgjöld til landbúnaðarmála. Útgjöld ríkisins munu hækka um rúmar níu hundruð milljónir króna á árinu 2017 vegna þess en eiga síðan að fara stiglækkandi út samningstímann. Á síðasta ári samningsins eiga útgjöld ríkisins að verða lægri en þau verða í ár.
Í fyrra, árið 2015, voru greiðslurnar 12,7 milljarðar króna og miðað við það verða stuðningsgreiðslur skattgreiðenda við íslenskan landbúnað um 14 milljarðar króna á árinu 2017.
Ástæður aukins kostnaðar eru, samkvæmt tilkynningu frá sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytinu, helst þær að tímabundið framlag vegna „innleiðingar á nýjum reglugerðum um velferð dýra hafa mikinn kostnað í för með sér, stuðningur við átak í tengslum við innflutning á nýju erfðaefni af holdanautastofni til að efla framleiðslu og bæta gæði á nautakjöti, aukinn stuðningur við lífræna ræktun og framlög til að skjóta stoðum undir aukna fjölbreytni í landbúnaði.“
Með undirritun samningsins verða töluverðar breytingar á starfsumhverfi bænda. Stefnt verður að því að leggja af kvótakerfi í mjólkurframleiðslu og sauðfjárrækt og að losa um gildandi styrkjafyrirkomulag þannig að bændur verði ekki bundnir við framleiðslu á mjólk eða kjöti líkt og verið hefur.