Stjórn Símans leggur til að 20 prósent af hagnaði félagsins,
alls 575 milljónir króna, verði greidd út sem arður á árinu 2016 til hluthafa
vegna frammistöðu Símans árið 2015. Auk þess leggur stjórnin til að farið verði
í framkvæmd endurkaupaáætlunar á hlutabréfum í félaginu fyrir fjárhæð sem nemur
allt að 30 prósent af hagnaði félagsins á árinu 2015. Hagnaður Símans í fyrra
var 2,9 milljarðar króna og því er gert ráð fyrir að Síminn kaupi hlutabréf af
hluthöfum fyrir um 870 milljónir króna. Þetta kemur fram í ársreikningi Símans fyrir
árið 2015 sem birtur var í gær.
Með því að lækka hlutafé samhliða kaupum af hluthöfum félagsins í stað þess að greiða út arð koma hluthafar Símans sér undan skattgreiðslum vegna frekari arðgreiðslna, en ef bókfært verð hlutabréfa er hærra eða það sama og söluverðið verður ekki til skattskyldur söluhagnaður. Af arðgreiðslum þarf hins vegar að greiða 20 prósenta fjármagnstekjuskatt.
Stórsókn inn á fjölmiðlamarkað
Rekstur Símans gekk vel á síðasta ári og tekjur hans námu 30.407 milljónum krónum á árinu. Það er eilítið hærra en þær voru árið 2014 og ljóst að mikill stöðugleiki er í tekjumyndun hjá félaginu. Hagnaður Símans dróst þó saman milli ára, var 2,9 milljarðar króna samanborið við 3,3 milljarða króna árið 2014. Þar skiptir mestu að hrein fjármagnsgjöld Símans voru um 1,3 milljarðar króna í fyrra en 609 milljónir króna árið 2014. Hreinar vaxtaberandi skuldir lækkuðu um 1,3 milljarða króna á milli ára og stóðu í 20,1 milljarði króna um síðustu áramót.
Staða Símans er mjög sterk sem stendur. Félagið fjárfesti mikið í fjarskiptainnviðum í fyrra og hóf stórsókn inn á fjölmiðlamarkaðinn með opnun linulegrar dagskrár SkjásEins á landsvísu og mikilli fjárfestingu í efni, bæði innlendu og erlendu, sem sýnt er í sjónvarpsþjónustu félagsins, jafnt línulegri sem hliðraðri. Eigið fé Símans var 32,8 milljarðar króna og eiginfjárhlutfall félagsins 52,8 prósent.
Umdeild sala í aðdraganda skráningar
Síminn var skráður á markað í október í fyrra. Aðdragandi skráningarinnar var mikið til umfjöllunar í fjölmiðlum og var harðlega gagnrýndur þar sem tveitr hópar keyptu hlut í félaginu af Arion banka á lægra gengi en bauðst í útboðinu. Fyrst keyptu hópur stjórnenda Símans og meðfjárfesta þeirra fimm prósent hlut á genginu 2,5 krónur á hlut. Þeir mega ekki selja þann hlut fyrr en 1. janúar 2017.
Í lok september seldi Arion banki síðan fimm prósent hlut í Símanum til þeirra aðila sem voru með mest fjármagn í stýringu hjá bankanum á genginu 2,8 krónur á hlut. Þessi hópur mátti selja sinn hlut 15. janúar síðastliðinn. Meðalverð í útboði Símans var 3,33 krónur á hlut og gengi bréfa í honum í dag er 3,39 krónur á hlut.
Rekstur Vodafone einnig sterkur
Hitt fjarskiptafyrirtækið á markaði, Fjarskipti hf. (móðurfélag Vodafone), birti líka uppgjör sitt í vikunni. Það skilaði alls 1,3 milljarða króna hagnaði og jókst hann um 18 prósent á milli ára. Tekjur jukust um tæpar 500 milljónir króna og voru 13,7 milljarðar króna í fyrra. Hreinar vaxtaberandi skuldir voru 3,9 milljarðar króna og lækkuðu um 14 prósent á milli ára. Eigið fé er um níu milljarðar króna og eiginfjárhlutfallið 58,7 prósent.
Vodafone ætlar ekki að greiða út neinn arð vegna síðasta árs en mun halda áfram að kaupa eigin bréf af hluthöfum sínum. Í fyrra keypti félagið alls eigin hluti fyrir 400 milljónir króna og það áætlar að kaupa slíka fyrir 100 milljónir króna á þessu ári. Engin arður verður greiddur til hluthafa Vodafone vegna frammistöðu félagsins á árinu 2015.
Í tilkynningu frá Fjarskiptum vegna uppgjörsins segir að mikil þróun sé í íslenska fjarskiptageiranum, ekki síst á sjónvarpsmarkaði. „Þegar má sjá aukna gagnamagnsnotkun með tilkomu Netflix án þess að hafa haft áhrif á fjölda áskrifenda af sjónvarpsþjónustum félagsins. Hraður vöxtur er í fjölda áskrifenda að Vodafone PLAY, sjónvarpsþjónustu Vodafone. Áskrifendur eru nú í kringum 8.500 talsins en meðalfjölgun áskrifenda hefur verið yfir 12% á mánuði frá því þjónustan var fyrst kynnt í maí síðastliðnum.“