Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra segist ánægður með niðurstöður nýrra búvörusamninga. Í samtali við Morgunblaðið í dag segir hann: „Það er búið að undirrita þessa samninga og málið er frá.“
Nýir búvörusamningar gera það að verkum að útgjöld ríkisins vegna greiðslna til landbúnaðar aukast um 900 milljónir á næsta ári. Heildarútgjöld ríkisins vegna samningins á næta ári verða þrettán milljarðar króna. Hækkunin verður þó ekki eins mikil á komandi árum og á að vera að meðaltali um 700 milljónir á ári. Sigurður Ingi Jóhannsson, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, og Sindri Sigurgeirsson, formaður Bændasamtakanna, undirrituðu samningana á föstudag. Þeir eru til tíu ára.
Þótt forsætisráðherra segi málið frá á Alþingi enn eftir að samþykkja nýja búvörusamninga. Þegar hefur gætt umtalsverðrar óánægju með samninginn innan annars stjórnarflokksins, Sjálfstæðisflokksins. Ragnheiður Ríkharðsdóttir, þingflokksformaður Sjálfstæðisflokksins, er til að mynda alfarið á móti honum. Hún segist aldrei munu samþykkja málið á Alþingi. Í stöðufærslu sem Ragnheiður setti á Facebook síðu sína á föstudag, þar sem hún deilir frétt um undirritun samninganna, segir hún: „Eru menn ekki að grínast, aldrei með mínu samþykki á Alþingi Íslendinga.”
Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, ritari Sjálfstæðisflokksins, tók undir með Ragnheiði í Vikulokunum á Rás 1 á laugardag. „Mér líst mjög illa á þessa samninga. Það er gjörsamlega ótækt að ætla að bæta svona í ríkisstyrki til landbúnaðarins. Þetta er ekki rétta leiðin til að bæta kjör bænda eða annað, sagði hún. „Landbúnaður á ekki að vera jafn mikið ríkisstyrktur og hann er í dag, hvað þá að bæta næstum því milljarði við. Það er út í hött. Ég vona að þetta verði ekki samþykkt á þinginu.”
Vilhjálmur Bjarnason, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, hefur einnig sagt að hann geti ekki stutt samninganna eins og þeir séu.