Bandarískur fjárfestingasjóður sem stýrt er af bandaríska sjóðastýringarfyrirtækinu Eaton Vance Management er kominn í hóp stærstu hluthafa HB Granda og Eimskipa. Eaton Vance Management á einnig stóran hluta af 300 milljarða aflandskrónum sem fastar eru innan íslenskra hafta og Seðlabanki Íslands hefur stefnt að að bjóða upp í uppboði í nánustu framtíð. Sjóðir í stýringu Eaton Vance hafa verið í hópi þeirra erlendu aðila sem fjárfest hafa hvað mest í íslenskum ríkisskuldabréfum og skráðum félögum í Kauphöll Íslands undanfarna mánuði. Frá þessu er greint í DV.
Alls á sjóður sem stýrt er af dótturfélagi Eaton Vance 0,6 prósent hlut í HB Granda og tæplega eitt prósent hlut í Eimskipum. Sjóðurinn, sem heitir Global Macro Portfolio, er á meðal 20 stærstu eigenda beggja félaga og markaðsverðmæti hlutar hans í Eimskipum og HB Granda nemur samtals um 850 milljónum króna. DV segist hafa heimildir fyrir því að sjóðurinn hafi enn fremur keypt hluti í fleiri skráðum félögum á Íslandi, en einungis er birtur listi yfir 20 stærstu hluthafa hverju sinni.
Vaxtamunaviðskipti og hlutabréfakaup
Kjarninn greindi frá því í byrjun febrúar að erlendir aðilar hafi alls keypt eignir á Íslandi fyrir 76,1 milljarð króna í fyrra. Langstærstur hluti fjárfestingar þeirra var í íslenskum ríkisskuldabréfum, alls um 54 milljarðar króna. Þar er um að ræða, að minnsta kosti að hluta, svokölluð vaxtamunaviðskipti. Þá sækja fjárfestar sér ódýrt fjármagn á lágvaxtarsvæðum og fjárfesta í skuldabréfum í hávaxtalöndum eins og Íslandi, þar sem vextir, og þar af leiðandi ávöxtun, er mun hærri en gengur og gerist.
Erlendir aðilar keyptu auk þess hlutabréf fyrir 5,7 milljarða króna, fasteignir fyrir 652 milljónir króna og fjárfestu í atvinnurekstri fyrir um þrettán milljarða króna. „Aðrar fjárfestingar erlendra aðila“ námu síðan um 1,1 milljarði króna. Þetta kom fram í svari Bjarna Benediktssonar, fjármála- og efnahagsráðherra, við fyrirspurn Þorsteins Sæmundssonar, þingmanns Framsóknarflokksins, um innflæði gjaldeyris til landsins á árinu 2015.