Íslandsbanki gefur ekki upp hversu mikið bankinn hefur fært niður virði útlána til aðila í þjónustu við olíuiðnaði á hafi. Þetta kom fram í máli Birnu Einarsdóttur, bankastjóra bankans, og Sverris Arnar Þorvaldssonar, framkvæmdastjóra áhættustýringar hans, á uppgjörsfundi með fjölmiðlum í dag vegna ársreiknings bankans fyrir árið 2015. Sverrir sagði það vera „vonbrigði að þetta skyldi þróast á þennan veg,“ og átti þar við stöðuna á markaði fyrir aðila í þjónustu við ólíuiðnað, aðallega í Noregi.
Í ársreikningi Íslandsbanka sem birtur var í morgun kom fram að bankinn hefði bókað virðisrýrnun á stöðu sína á lánum til fyrirtækja sem þjónusta olíuiðnaðinn. Ljóst er að sú rýrnun snýr að lánum til norska skipafélagsins Havila Shipping ASA og íslenska félagsins Fáfnis Offshore. Í reikningnum kom fram að eitt prósent af útlánasafni bankans var til fyrirtækja sem þjónusta olíuiðnaðinn. Alls voru útlán til viðskiptavina 665,7 milljarðar króna um síðustu áramót og því ljóst að lán til geirans nema tæpum sjö milljörðum króna.
Tók þátt í sjö milljarða lánveitingu til Havila
Havila, sem á 27 skip sem þjónusta olíuiðnaðinn í Norðursjó, hefur verið eitt af leiðandi félögum í geiranum á undanförnum árum. Havila rambar nú á barmi gjaldþrots og er í viðræðum við kröfuhafa sína um endurskipulagningu á skuldum. Félagið færði niður virði skipaflota síns fyrr í þessum mánuði um 21 milljarð króna. Heimsmarkaðsverð á olíu hefur fallið úr um 115 dölum á tunnu í 32 dali frá sumrinu 2014. Til að vinnsla á olíu í Norðursjó borgi sig er talið að verðið þurfi að vera um 60 dalir á tunnu.
Íslandsbanki og Arion banki eru báðir á meðal lánveitenda Havila. Í júlí 2014 lánaði Arion banki Havila 300 milljónir norskra króna, um 4,5 milljarða króna. Bankinn sagði í svari við fyrirspurn Kjarnans í síðustu viku að það væri óvíst hvort lánið myndi innheimtast. Arion banki birtir uppgjör sitt fyrir árið 2015 á morgun, miðvikudag, og þá kemur í ljós hvort bankinn hafi fært lánið niður í bókum sínum.
Íslandsbanki tók þátt í sambankaláni til Havila upp á alls 475 milljónir norskra króna, rúmlega sjö milljarða króna, nokkrum mánuðum áður en Arion banki lánaði félaginu. Það lán hefur nú verið fært niður í bókum Íslandsbanka.
Fáfnis-verkefnið einnig í uppnámi
Íslandsbanki tók einnig þátt í fjármögnun á skipum sem íslenska félagið Fáfnir Offshore létu smíða fyrir sig á undanförnum árum. Eina skipið sem er fullbúið og í rekstri er Polarsyssel, sem kostaði yfir fimm milljarða króna og er dýrasta skip Íslandssögunnar. Það skip var afhent haustið 2014 og er með þjónustusamning við sýsluembættið á Svalbarða til tíu ára um birgðaflutninga og öryggiseftirlit. Sá samningur gengur út á að sýslumannsembættið hefur skipið til umráða að lágmarki í 180 daga á ári, eða sex mánuði. Hina sex mánuði ársins stóð til að nota skipið í verkefni tengdum olíu- og gasiðnaðinum í Norðursjó.
Það mun ráðast í febrúar hvort nýr samningur Fáfnis Offshore við sýslumanninn á Svalbarða, sem snýst um að fyrirtækið sinni verkefnum fyrir hann í níu mánuði á ári í stað sex, muni halda. Samningurinn skiptir miklu máli fyrir Fáfni Offshore, sem er að nánast öllu leyti í íslenskri eigu.
Kjarninn greindi frá því í byrjun desember 2015 að afhending á Fáfni Viking, skipi í eigu Fáfnis Offshore, hafi verið frestað í annað sinn. Skipið átti að afhendast í mars 2016 en samkvæmt nýju samkomulagi milli Fáfnis og norsku skipasmíðastöðvarinnar Hayvard Ship Technologies AS mun afhending þess frestast fram til júnímánaðar 2017. Ástæða frestunarinnar á afhendingu á nýja skipinu sé einföld: ástandið á olíumarkaði hefur leitt til þess að engin verkefni séu til staðar fyrir skip eins og Fáfni Viking.
Nokkrum dögum síðar var Steingrimi Erlingssyni sagt upp störfum sem forstjóra fyrirtækisins. Heimildir Kjarnans herma að miklir samstarfserfiðleikar hafi verið milli stjórnar Fáfnis Offshore og Steingríms í aðdraganda uppsagnar hans.
Höfnuðu tilboði í Fáfni
Íslandsbanki er ekki bara lánveitandi Fáfnis, heldur lika á meðal eigenda fyrirtækisins í gegnum framtakssjóðinn Akur II. DV greindi frá því nýverið að Steingrímur Erlingsson, fyrrum forstjóri og stofnandi Fáfnis Offshore, hefði boðið í hlut tveggja framtakssjóða, Akurs og Horns II, í Fáfni Offshore í janúar. Tilboðið, sem rann út í byrjun síðustu viku, var samkvæmt heimildum Kjarnans upp á um tíu prósent af þeirri upphæð sem sjóðirnir tveir settu upphaflega í Fáfni Offshore, sem nam um tveimur milljörðum króna. Því hefðu framtakssjóðirnir tekið á sig gríðarlegt tap ef þeir hefðu samþykkt tilboðið. Það gerðu þeir ekki.
Stærstu eigendur umræddra framtakssjóða eru íslenskir lífeyrissjóðir. Ríkisbankarnir tveir, Íslandsbanki og Landsbankinn, eiga einnig hlut í þeim ásamt Vátryggingafélagi Íslands.