Steingrímur Erlingsson, stofnandi og fyrrum forstjóri Fáfnis Offshore, segir að hluti þeirra fjármuna sem lagðir hafa verið í fyrirtækið séu tapaðir fjármunir. Íslenskir lífeyrissjóðir og tveir bankar í ríkiseigu, Landsbankinn og Íslandsbanki, eiga óbeint stóran hlut í félaginu og hafa lagt þeim til milljarða króna í gegnum framtakssjóði. Auk þess hefur Íslandsbanki lánað Fáfni milljarða króna vegna smíða á skipum félagsins. Fáfnir á skipið Polarsyssel, sem kostaði fimm milljarða króna og er dýrasta skip Íslandssögunnar, og hið hálftilbúna Fáfnir Viking, sem hefur enn ekki verið afhent vegna þess að engin verkefni eru fyrir það.
Steingrímur er enn á meðal eigenda Fáfnis en var rekinn sem forstjóri fyrirtækisins í desember í fyrra. Á morgun verður hluthafafundur þar sem meirihlutaeigendur ætla að leggja til að Fáfnir fari í skuldabréfaútgáfu til að greiða af kostnaði vegna skipsins sem enn hefur ekki verið afhent. Eins og stendur á Fáfnir ekki fé til þess. Steingrímur var í viðtali í Kastljósi í kvöld og sagði að hluta þeirra fjármuna sem lagðir hefðu verið í Fáfni væru tapaðir fjármunir. Fyrirtækið væri búið að borga á annan milljarð krona inn á skip sem væri smíðað til að fara inn á þjónustumarkað sem væri nú í mjög slæmu ástandi og ekki væri fyrirséð að það ástand myndi lagast á næstu árum. Þar á hann við þjónustumarkaðinn við olíuiðnað í Norðursjó sem hefur hrunið samhliða lækkun á heimsmarkaðsverði á olíu á undanförnum árum.
Eina verkefni Fáfnis sem stendur, sem Polarsyssel sinnir, er þjónustusamningur við sýslumanninn á Svalbarða sem tryggir verkefni í sex mánuði á ári til tíu ára. Viðræður fóru fram í fyrra um að lengja það tímabil í níu mánuði á ári en Steingrímur sagði það vera í uppnámi. Í raun hefði sýslumannsembættið ekkert þörf á níu mánaða þjónustu. Framlengingin væri afrakstur ákveðinnar hagsmunagæslu sem átt hefði sér stað.
Steingrímur gerði öðrum hluthöfum í Fáfni tilboð fyrir skemmstu sem var ekki tekið. Heimildir Kjarnans herma að það hafi verið upp á um tíu prósent af þeim fjármunum sem þeir höfðu sett inn í Fáfni. Steingrímur sagði í Kastljósi að tilboðið hafi verið hærra en það sem hluthafarnir meta virði hluta sinna í Fáfni á. Hann sagðist enn fremur ekki vita hvað hafi valdið þeirri kergju sem orðið hefur á milli hans og hinna hluthafanna, sem geri það að verkum að þeir ræða ekki saman nema í gegnum lögmenn.