Gunnar Bragi Sveinsson, utanríkisráðherra, átti í dag fund með Jim Townsend, aðstoðarvarnamálaráðherra Bandaríkjanna, og Benjamin Ziff, aðstoðarutanríkisráðherra, um samstarf þjóðanna á sviði öryggis- og varnarmála. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá utanríkisráðuneytinu, en fundurinn var hluti af reglubundnu samráði landanna um öryggis- og varnarmál með þátttöku fulltrúa úr forsætisráðuneyti og innanríkisráðuneyti, auk utanríkisráðuneytis.
Fjallað var um breytt öryggisumhverfi í Evrópu og í Miðausturlöndum og hvaða áhrif það hefur á Evrópu, t.d. með auknum straumi flóttamanna. Aukin hætta á hermdar- og hryðjuverkum var rædd.
Þá var fjallað um vaxandi hernaðarumsvif Rússa á Norður-Atlantshafi og „viðbrögð Atlantshafsbandalagsins til að styrkja eigin varnir“ eins og orðrétt segir í tilkynningu.
Eins og greint var frá. 2. febrúar síðastliðinn, þá hefur Bandaríski herinn óskað eftir fjármagni á fjáráætlun varnarmálaráðuneytisins á næsta ári til þess að uppfæra flugskýli í Keflavík til þess að hægt sé að hýsa þar P-8 Poseidon flugvélar, en þær hafa komið í stað P-3 Orion vélanna sem voru staðsettar í herstöðinni í Keflavík þegar herinn var þar. Slíkar vélar eru reglulega sendar til Keflavíkur í eftirlitsflugi, samkvæmt upplýsingum frá sjóhernum.
Einnig var rætt um
aðkomu bandaríska hersins á Íslandi að loftrýmisgæslu, kafbátaleit og þátttöku
í æfingum, sem er hluti af vörnum landsins og sameiginlegum vörnum
Atlantshafsbandalagsins, sem byggir á aðild okkar að bandalaginu og
varnarsamningnum við Bandaríkin frá 1951.
Engar viðræður hafa farið fram um fasta viðveru bandaríska hersins á Íslandi og engar óskir lagðar fram þar að lútandi, segir í tilkynningu.
Að loknum fundi
utanríkisráðherra áttu embættismenn beggja landa ítarlegan samráðsfund um
samstarf á sviði öryggis- og varnarmála og voru, auk ofangreindra mála, einnig
til umræðu löggæslumál og netvarnir, og gerð var grein fyrir tillögu til
þingsályktunar um þjóðaröryggisstefnu fyrir Ísland, sem nú er til umfjöllunar á
Alþingi.