Landsbankinn hagnaðist um 36,5 milljarða króna árið 2015. Þetta kemur fram í tilkynningu Landsbankans þar sem gert er grein fyrir uppgjöri síðasta árs. Arðsemi eiginfjár var 14,8 prósent á árinu 2015, samanborið við 12,5 prósent árið áður.
Tekjur bankans vegna virðisbreytinga á útlánum námu 13,5 milljörðum króna. Eigið fé bankans nemur nú um 264,5 milljörðum króna. Það er svipað eigið fé og er nú hjá Landsvirkjun, en íslenska ríkið er eigandi beggja þessara fyrirtækja.
Eiginfjárhlutfall bankans er nú ríflega 30 prósent.
Lagt verður til við aðalfund Landsbankans að 28,5 milljarðar króna verði greiddir í arð til hluthafa, en eins og áður segir er íslenska ríkið eigandi nær alls hlutafjár, eða 98 prósent
Steinþór Pálsson, bankastjóri Landsbankans, segir rekstur bankans hafa gengið vel í fyrra. Hann segir enn fremur að viðbúið sé að hagnaður muni lækka nokkuð á næstunni þar sem óvenjulegir liðir, svo sem virðisaukning útlána, muni minnka verulega.
„Landsbankanum gekk vel á árinu 2015 og það var góður gangur á nánast öllum sviðum. Tekjur bankans jukust töluvert frá fyrra ári og um leið lækkuðu rekstrargjöld. Dregið hefur úr óvissu og áhættu hjá bankanum. Gæði eigna hafa aukist og fjármögnun bankans hefur styrkst með betra aðgengi að innlendum og erlendum lánamörkuðum. Lausafjárstaðan er sterk auk þess sem eiginfjárstaða bankans er hlutfallslega með því hæsta sem þekkist, þrátt fyrir háar arðgreiðslur. Samþætting Sparisjóðs Vestmannaeyja og Sparisjóðs Norðurlands við bankann gekk vel og styrkir Landsbankann enn frekar á landsbyggðinni,“ segir Steinþór í tilkynningunni.
Útlán jukust um 93 milljarða króna en aukningin er að stærstum hluta vegna aukinna íbúðarlána til einstaklinga ásamt auknum lánveitingum til fyrirtækja.
Þá hafa allir endurreistu bankarnir skilað uppgjörum fyrir síðasta ár. Arion banki hagnaðist um 49,7 milljarða, Íslandsbanki um rúmlega 20 milljarða og Landsbankinn um 36,5 milljarða, eins og áður segir. Samanlagður hagnaður endurreistu bankanna þriggja nam því rúmlega 106 milljörðum króna.