Fjárframlög íslenskra stjórnvalda til háskóla er mun lægra heldur en á samanburðarlöndunum. Íslensk stjórnvöld verja innan við tveimur prósentum af vergri landsframleiðslu í vísindarannsóknir og þróun á háskólasviði. Háskóla Íslands vantar að minnsta kosti 60 prósent meira fjármagn til að ná meðaltali OECD. Um 130 prósent vantar til að ná meðaltali fjárframlags hinna Norðurlandanna til rannsókna og þróunar.
Markmiðum ekki náð
Fjárveitingar ríkisins til háskóla 2014 voru rúmir 16 milljarðar króna. Vísinda- og tækniráð, sem starfar undir forsætisráðuneytinu og hefur það hlutverk að efla vísindarannsóknir, vísindamenntun og tækniþróun í landinu, mótaði stefnu fyrir árin 2014 til 2016 þar sem markmiðið var að verja þremur prósentum af vergri landsframleiðslu í vísindarannsóknir og þróun. Eins og áður segir, er hlutfallið samt sem áður innan við tvö prósent.
Magnús Karl Magnússon, deildarforseti læknadeildar og prófessor í lyfja- og eiturefnafræði við Háskóla Íslands, hélt erindi um fjárveitingar til háskóla í hádeginu í dag. Hann segir tölurnar ískyggilegar.
„Hlutfallið er lægra en við héldum. Á árunum 1999 til 2010 juku Norðurlandaþjóðirnar fjármagn til háskóla per hvern stúdent um 38 til 118 prósent, á meðan Íslendingar á sama tíma juku um 7,7 prósent. Meðaltal OECD jókst á sama tíma um 46 prósent,” segir Magnús. „Með öðrum orðum, við erum að fljóta sofandi að feigðarósi.”
Alvarlegar afleiðingar að fjársvelta kerfið
Magnús segir Ísland eina OECD ríkið sem eyði meiri fjármunum í grunnskólanemendur en háskólanemendur. Að fjársvelta háskólakerfið geti haft alvarlegar afleiðingar.
„Nýliðun innan skólanna er allt of lítil og þannig sköpum við ekki tækifæri fyrir okkar best menntaða vísindafólk sem er tilbúið að starfa hvar sem er í heiminum,” segir hann. „Fjármagn til rannsókna er af mjög skornum skammti.” Um sé að ræða stórkostlegt hagsmunamál fyrir framtíð íslenskrar þjóðar. Engin þjóð hafi náð að halda í við samkeppni eða auka velferð án menntunar.
„Ég held að þetta sé stærsta mál sem þarf að takast á við næsta áratuginn hér á Íslandi. Það hefur enginn pólitískur flokkur tekið málaflokkinn í forgang, því miður. Háskólafólk hefur líka þagað alltof lengi,” segir Magnús.
Máttlausir stjórnmálamenn
Á síðasta ári voru heildartekjur Háskóla Ísland um 17 milljarðar og þar af voru beinar fjárveitingar um 11,8 milljarðar. Til að ná Norðurlöndunum þyrfti HÍ að afla sér um 38,5 milljarða í tekjur og þar af þyrfti föst fjárveiting að vera rúmlega 26 milljarðar í stað 11,8 í dag.
„Vöxtur háskóla um allan heim er gífurlegur,” segir Magnús. „Skýringar á þeim vexti er ekki að finna í fjölgun nemenda, enda eru þessar tölur allar leiðréttar fyrir fjölda nema á háksólastigi. Þarna er um að ræða stórauknar fjárfestingar í háskólastiginu, bæði til að auka gæði náms og stórauka rannsóknir og nýsköpun þessara lykilstofnan í samfélaginu.”
Menntun virðist vera lítils metin í íslensku samfélagi, að mati Magnúsar og segir hann háskólamenntun og aðra starfsmenntun virðist sitja þar sérstaklega á hakanum.
„Það er ekkert pólitískt afl sem setur mennta, vísinda og nýsjköpunarmál á oddinn sem er mjög sérkennilegt. Ekki síst má nefna að háskólfólk hefur setið og þagað um sinn mikilvæga málaflokk alltof lengi. Þessu þarf að breyta.”