Tíu viðskiptahugmyndir hafa verið valdar í úrslitakeppni Gulleggsins í ár. 100 manna rýnihópur skipuð konum til jafns við karla valdi úr um 200 umsóknum. Tíu stigahæstu hugmyndirnar taka þátt í lokakeppninni. Þar kennir ýmissa grasa, allt frá þýðingarlausnum, netsálfræðiþjónustu til lífrænna húðvara og ferðaþjónustu. Tilkynnt verður um úrslit laugardaginn 12. mars á lokahófi í Háskólanum í Reykjavík.
Almenningi gefst tækifæri á að velja sitt uppáhalds verkefni á vef Kjarnans í aðdraganda lokahófsins.
Í keppnina bárust um 200 hugmyndir og viðskiptaáætlanir sem hafa sótt vinnusmiðjur undanfarna mánuði þar sem teymin hafa hlotið leiðsögn og fræðslu til að móta hugmyndirnar svo þær standist raunhæfar og vandaðar áætlanir. Keppnin er haldin á vegum Icelandic Startups í samstarfi við samstarfsháskólana Háskólann í Reykjavík, Háskóla Íslands og Listaháskóla Íslands.
Gulleggið er stærsta frumkvöðlakeppni landsins og er haldin ár hvert. Aldrei hefur hlutfall kvenna verið jafn hátt meðal umsókna í keppnina. 40 prósent hugmyndanna sem bárust Gullegginu í ár voru skipaðar kvenkyns leiðtoga. Að undanförnu hefur verið gert nokkuð átak til að hvetja konur til þátttöku í nýsköpun, meðal annars með verkefni Vinnumálastofnunar og Velferðarráðuneytisins.
Í hópi tíu stigahæstu hugmyndanna eru 35 prósent konur. Aðeins eitt teymi er eingöngu skipað konum en fjögur eru eingöngu skipuð körlum. Helmingur teymanna eru hins vegar skipuð blöndu af konum og körlum.
Sé litið til háskólanna þá eru flestir þátttakendur í lokakeppni Gulleggsins í ár í námi í Háskólanum í Reykjavík eða tæpur helmingur. Fimmtungur er í námi í Háskóla Íslands en tæplega 30 prósent þátttakenda eru ekki tengdir háskóla.
Þetta er í níunda sinn sem Gulleggið er haldið en samtals hafa um 2.200 hugmyndir borist í keppnina. Þar á meðal eru hugmyndir sem orðið hafa að fyrirtækjum sem njóta velgengni. Má þar nefna Meniga, Radiant Games og Pink Iceland.
Hugmyndirnar 10 sem keppa til úrslita í Gullegginu 2016
- Arkvit - Þróar þýðingararlausn sem notast við nýja algóritma sem ná 50% betri árangri en aðrar þýðingarvélar
- Gagnleg Hugsun - Gagnleghugsun.is býður upp á sálfræðiþjónustu á netinu
- Hringborð - Hringborð er app sem hvetur fólk til að hjálpast að í háskólanámi
- Icelandic Lava Show - Lifandi rauðglóandi hraunsýning
- Lífvera – Meniga heilsunnar
- Pay Analytics - Hugbúnaður sem lágmarkar kostnað við að útrýma kynbundnum launamun
- Platome líftækni –Aðferð sem styður við framfarir í stofnfrumurannsóknum og læknisfræði með blóðflögum
- Shortcut – Áfangastaður þinn - Einum smelli nær
- Tipster – Fyrir þá sem vilja hagnast á íþróttaveðmálum
- Zeto – Lífrænar húðvörur úr þaraþykkni