Samanlagðar bónusgreiðslur sem Arion banki og Íslandsbanki skuldbundu sig til að greiða vegna kaupaukakerfa sinna í fyrra nema 977 milljónum króna. Bankarnir tveir hafa samanlagt gjaldfært tæpan tvo og hálfan milljarð króna vegna bónusgreiðslna á þremur árum.
Arion banki ætlar að greiða 599 milljónir króna vegna ársins 2015 í kaupaukagreiðslur handa rúmlega hundrað starfsmönnum bankans og dótturfélaga hans sem eiga rétt á slíkum. Þar af fær Höskuldur H. Ólafsson bankastjóri 7,2 milljónir króna í bónus ofan á 56 milljóna króna árslaun sínu og níu framkvæmdastjórar skipta á milli sín 26,4 milljónum króna í árangurstengdum greiðslum.
Íslandsbanki gjaldfærði 378 milljónir króna vegna kaupaukagreiðslna á árinu 2015 til valinna starfsmanna bankans og dótturfélaga hans. Birna Einarsdóttir bankastjóri fær 7,2 millljónir króna ofan á 44 milljóna króna árslan sín og átta framkvæmdastjórum Íslandsbanka var lofað 29 miljónum króna. Þess má geta að Íslandsbanki er nú að öllu leyti í eigu ríkisins. Frá þessu er greint í DV.
Vert er að taka fram að í samræmi við reglur Fjármálaeftirlitsins er greiðslu á að minnsta kosti 40 prósent kaupauka frestað um þrjú ár.
Greiddu tæplega 1,5 milljarð árin 2013 og 2014
Íslandsbanki og Arion banki gjaldfærðu samtals um 835 milljónir króna vegna kaupaukagreiðslna til starfsmanna sinna á árinu 2014. Arion banki gjaldfærði 477 milljónir króna það ár sem var 25 milljónum króna meira en árið á undan. Íslandsbanki gjaldfærði 258 milljónir króna árið 2014, eða 17 milljónum krónum meira en árið 2013. Samtals höfðu bankarnir tveir því gjaldfært 1.428 milljónir króna í bónusa vegna áranna 2013 og 2014. Við bætast nú 977 milljónir króna vegna ársins 2015.
Landsbankinn, sem er að mestu í eigu ríkisins, er ekki með árangurstengdar greiðslur. Um 1.400 núverandi og fyrrverandi starfsmenn bankans fengu hins vegar hlut í bankanum gefins árið 2013 og fá greiddan arð vegna hans. Gjörningurinn var liður í samkomulagi frá árinu 2009, um fjárhagsuppgjör milli gamla og nýja Landsbankans. Skattalegt verðmæti hlutabréfanna nam 4,7 milljörðum króna þegar hann var afhentur.
Reynt að hækka bónusheimildina í lögum
Reynt var að auka heimild fjármálafyrirtækja þannig að þau gætu greitt hærri bónusa í frumvarpi um breytingar á lögum um fjármálafyrirtæki sem var til umræðu á þingi í fyrra. Þar var meðal annars lagt til að tvöfalda bónusgreiðslur starfsmanna fjármálafyrirtækja þannig að þær mættu vera allt að 50 prósent af föstum árslaunum starfsmanns, en þær mega nú vera 25 prósent af árslaunum hans. Fjármála- og efnahagsráðuneytið sendi frá sér minnisblað til efnahags- og viðskiptanefndar þegar málið var þar til vinnslu sem í stóð að það teldi að það yrði að „skaðlausu“ að veita fjármálafyrirtækjum heimild til að greiða tvöfalt hærri bónusgreiðslur en núverandi reglur kveða. Þá mætti einnig skoða að smærri fjármálafyrirtækjum yrði leyft að greiða hlutfallslega enn hærri kaupauka til starfsmanna, til dæmis 100 prósent af árslaunum, heldur en stóru viðskiptabönkunum.
Breytingin á kaupaukakerfum bankanna var á endanum felld út eftir miklar umræður á þingi og í samfélaginu og lagabreytingin afgreidd án hennar.