Búið er að ná samkomulagi um að lengja þjónustusamning Fáfnis Offshore við sýslumannsembættið á Svalbarða úr sex mánuðum á ári í níu. Gengið verður frá skriflegum samningi á næstu dögum. Eina starfandi skip Fáfnis, Polarsyssel, sinnir því verkefni sem er það eina sem skipið hefur og þar af leiðandi gífurlega mikilvægt fyrir Fáfni. Polarsyssel er dýrasta skip Íslandssögunnar og kostaði um fimm milljarða króna. Þetta segir Jóhannes Hauksson, stjórnarformaður Fáfnis og starfsmaður Íslandssjóða við Fréttablaðið í dag.
Á hluthafafundi sem haldinn var í Fáfni á miðvikudag var tillaga um að Fáfnir gefi út skuldabréf til að standa við afborganir af greiðslum vegna smíði á seinni skipi fyrirtækisins, Fáfnis Viking. Öllum hluthöfum býðst að taka þátt í útgáfunni, sem mun bera 20 prósent vexti, en eignarhlutur þeirra sem það gera ekki munu þynnast út.
Lífeyrissjóðir í milljarðafjárfestingu
Í desember 2014 keypti Akur fjárfestingar, framtakssjóður í rekstri Íslandssjóða, sjóðsstýringarfyrirtækis Íslandsbanka, 30 prósent hlut í Fáfni Offshore fyrir 1.260 milljónir króna. Helstu eigendur sjóðsins eru þrettán lífeyrissjóðir, Íslandsbanki og VÍS. Lífeyrissjóður verslunarmanna er stærsti eigandi Akurs með 19,9 prósenta hlut. Þar á eftir kemur Gildi – lífeyrissjóður með 15 prósent. Íslandsbanki á 14 prósenta hlut en aðrir hluthafar tíu prósent eða minna.
Áður höfðu ýmsir fjárfestar komið að félaginu, meðal annars stjórnarformaðurinn Bjarni Ármansson, fyrrum bankastjóri Glitnis, í gegnum fjárfestingafélag sitt Sjávarsýn. Þá á félag tengt Havyard ship skipasmíðaverksmiðjunni, sem smíðar bæði skip Fáfnis Offshore, hlut í félaginu. Það á Horn II, framtakssjóður í rekstri Landsbréfa, sjóðsstýringarfyrirtækis Landsbankans, líka, en sjóðurinn á 23,1 prósent hlut í Fáfni Offshore.Auk þess á Steingrímur Erlingsson, stofnandi og fyrrum forstjóri Fáfnis, enn 21 prósent hlut í fyrirtækinu.
Fáfnir Offshore glímir við mikinn vanda vegna þess að markaðurinn sem fyrirtækið starfar á, þjónusta við olíuleit, hefur hrunið samhliða miklum verðlækkunum á heimsmarkaðsverði á olíu. Fyrir liggur að virði fyrirtækisins hefur hríðlækkað í virði á undanförnum misserum.
Segir Fáfni ekki hafa komist áfram í útboðinu
Í Fréttablaðinu í dag er einnig greint frá því að danska fyrirtækið Sky Wind Energy hafi lýst yfir áhuga á að greiða þá afborgun sem Fáfnir ætlar nú að gefa út skuldabréf til að standa undir. Um er að ræða jafnvirði 180 milljóna króna. Í blaðinu er greint frá því að Sky Wind Energy hafi viljað leggja fram nýtt hlutafé svo breyta mætti Fáfni Viking í þjónustuskip fyrir vindmyllur.
Jóhannes segir að tilboði Sky Wind Energy afi verið hagnað, ásamt ýmsum öðrum tilboðum sem lögð voru fram til stjórnenda Fáfnis. Hann segir „margar ástæður fyrir því“. Steingrímur Erlingsson sagði frá því í Kastljósi í vikunni að hann hefði viljað breyta Fáfni Víking í skip sem ætti að þjónusta vindmyllur á hafi úti. Í kjölfarið hafi Fáfnir orðið þátttakandi í útboði Siemens þar sem hugmyndin var að leigja skipið í þjónustu við vindmylluiðnaðinn til 15 ára. Steingrímur hafi séð um þau samskipti en honum var sagt upp störfum um miðjan desember í fyrra. Jóhannes segir að Fáfni hafi borist þær upplýsingar nýverið að fyrirtækið hafi ekki komist áfram í næstu umferð í útboðinu. Þó hafi nú verið ákveðið, á hluthafafundinum í vikunni, að færa Fáfni Víking í sérstakt félag, enda væru þeir fjármunir sem farið hafi í byggingu þess skips í hættu. Nú sé verið að skoða hvort hægt verði að breyta skipinu í þjónustuskip fyrir vindmyllur á sjó.