Hagvöxtur mun verða fjögur prósent í ár og 3,1 prósent á árinu 2017. Í fyrra var hann 4,2 prósent. Þetta kemur fram í endurskoðaðri þjóðhagsspá Hagstofu Íslands sem birt var í morgun. Í endurskoðaðri útgáfu er hagvaxtarspá Hagstofunar hækkuð, en í nóvember var því spáð að hagvöxtur á árinu 2016 yrði 3,5 prósent. Spáin fyrir árið 2017 hefur einnig verið uppfærð úr 2,5 prósentum í 3,1 prósent.
Þar er einnig spáð að verðbólga verði 2,5 prósent á þessu ári, vegna þess að lágt olíu- og hrávöruverð ásamt gengisstyrkingu haldi henni niðri. Spáð er að verðbólgan aukist í 3,9 prósent á næsta ári en minnki aftur eftir það.
Það verður annars vegar fjárfesting og hins vegar einkaneyslu sem munu knýja hagvöxt áfram fyrstu ár spátímams. Á þessu ári er gert ráð fyrir að einkaneysla aukist um 5,2 prósent en fjárfesting um 13,2 prósent. Á næsta ári á einkaneysla að aukast um 4,2 prósent en fjárfesting um 7,7 prósent.
Næstu ár eftir það, á tímabilinu 2018 til 2021, spáir Hagstofan því að hagvöxtur muni lækka og verða að meðaltali þrjú prósent á ári. Hann verður drifin áfram af um þriggja prósenta vexti í einkaneyslu á ári en draga mun úr vexti vegna fjárfestinga.