Íslandspóstur tapaði 118 milljónum króna í fyrra. Það er mun meira tap en árið áður þegar fyrirtækið, sem er að öllu leyti í eigu íslenska ríkisins og með einkarétt á bréfapósti á Íslandi, tapaði 34 milljónum króna. Rekstrartekjur Íslandspósts jukust lítillega á milli ára og voru 7,6 milljarðar króna.
Ingimundur Sigurpálsson, forstjóri Íslandspósts, segir fjárhagslega afkomu fyrirtækisins vera aðra en stefnt hafi verið að. „Ástæður óásættanlegrar afkomu á síðasta ári, líkt og árin á undan má rekja til fækkunar bréfa í einkarétti en magn þeirra hefur dregist saman um 33% á síðustu fimm árum. Þá hefur dreifinet póstþjónustunnar stækkað um rúm 3,3% á sama tíma með fjölgun íbúða- og atvinnuhúsnæðis sem leitt hefur til aukins kostnaðar. Á sama tíma hefur lögbundin krafa um þjónustu haldist óbreytt en stjórnendur fyrirtækisins hafa ítrekað vakið athygli stjórnvalda á óásættanlegri afkomu og fyrirsjáanlegum stigvaxandi vanda póstþjónustunnar ef ekki verður gripið til viðeigandi ráðstafana. Það er því fagnaðarefni að innanríkisráðherra hafi nú kynnt til umsagnar drög að frumvarpi til nýrra laga um póstþjónustu. Mikilvægt er að við setningu nýrra laga liggi fyrir kostnaðarmat á fjárhagslegri byrði vegna alþjónustu. Þannig hefur löggjafinn möguleika á því að meta saman annars vegar umfang þeirrar alþjónustu, sem hann ákveður, og hins vegar kostnað vegna hennar, en gera verður ráð fyrir því að fjárveiting fyrir þeirri þjónustu verði tryggð úr ríkissjóði. Svigrúm til þess að greiða niður þá þjónustu, eins og gert hefur verið með því að ganga á eigið fé Íslandspósts og þar með eign ríkisins, er afar takmarkað en þess utan er slík niðurgreiðsla bæði ógagnsæ og ein versta birtingarmynd á fjármögnun opinberrar þjónustu sem hugsast getur.“
Hafa hækkað gjöldum allt að 26,4 prósent
Kjarninn greindi frá því í byrjun árs að Póst- og fjarskiptastofnun hefði undanfarna níu mánuði heimilað Íslandspósti að hækka gjöld sín um allt að 26,4 prósent. Síðasta hækkunin tók gildi um síðustu áramót. Þetta kemur fram í gögnum sem Félag atvinnurekendahefur tekið saman.
Hækkunin hefur verið á bilinu 16,1 til 26,4 prósent. Mest hefur hún verið á svokölluðum magnpósti B, póstflokki sem fyrirtæki nota til samskipta við viðskiptavini sína. Sá póstflokkur er jafnframt sá sem er mest notaður allra. Í frétt Félags atvinnurekenda segir að ríflegar hækkanir póstburðargjalda hefðu verið samþykktar í lok síðasta árs þrátt fyrir að Póst- og fjarskiptastofnun hefði á sama tíma heimilað Íslandspósti að draga verulega úr þjónustu sinni við dreifbýli og dreifa þar pósti aðeins annan hvern virkan dag. Sú breyting mun taka gildi 1. mars næstkomandi, eða á morgun.