Þjónustuafgangur árið 2015 nam 191 milljarði króna árið 2015,samkvæmt bráðabirgðatölum, sem er 56 milljörðum meira en árið 2014. Þjónustuafgangurinn hefur aldrei verið meiri.
Aftur á móti jókst vöruskiptahalli í fyrra svo vöru- og þjónustujöfnuður var jákvæður um 155 milljarða sem er 31 milljarði meira en árið 2014, samkvæmt samantekt greiningardeildar Arion banka.
Eins og greint var frá í gær, í nýrri spá Íslandsbanka, er gert ráð fyrir um 30 prósent vexti í ferðaþjónustu á þessu ári og a gjaldeyristekjur geti numið 428 milljörðum króna.
„Sé nánar rýnt í tölur um þjónustuviðskipti má sjá sem fyrr að aukningin og mikill útflutningur skýrist að langmestu leyti af ferðaþjónustu,“ segir í samantekt greiningardeildar Arion banka.
Í greiningu er einnig minnst á að innflutningur hafi aukist hratt að undanförnu, en margt bendi þó til þess að í þetta skiptið - ólíkt því sem var á árunum fyrir hrun fjármálakerfisins - sé innistæða fyrir þessum aukna innflutningi.
„Innflutningur jókst mikið í fyrra og súpa sjálfsagt margir hveljur ef við bendum á að innflutningur þá var meiri á föstu gengi heldur en árið 2007. Þrennt verður þó að hafa í huga í því samhengi. Í fyrsta lagi hefur hagkerfið aftur náð vopnum sínum og virðist sem hér hafi myndast framleiðsluspenna. Í öðru lagi hefur útflutningur vaxið um 51 prósent síðan 2007 svo innflutningurinn hefur ekki verið fjármagnaður með erlendu lánsfé að þessu sinni með áhættunni sem því fylgir. Einnig má benda á að aukin þörf hefur skapast fyrir innflutning í tengslum við aukin umsvif í útflutningsgreinum, sérstaklega ferðaþjónustu,“ segir í samantektinni.