Ingvi Hrafn Óskarsson hefur verið skipaður formaður fjölmiðlanefndar til 31. ágúst 2019. Hann tekur við af Karli Axelssyni, sem óskaði lausnar frá starfinu.
Ásamt Ingva Hrafni eru Hulda Árnadóttir, Vilhjálmur H. Vilhjálmsson, Salvör Nordal og Arna Schram í fjölmiðlanefndinni.
Ingvi Hrafn sagði sig úr stjórn RÚV í byrjun nóvember, og sagði þá að það væri sökum anna. Hann hafði átt sæti í stjórninni frá ágúst 2013. „Vegna mikilla og vaxandi anna í starfi mínu sem lögmaður sé ég mér því miður ekki fært að verja áfram nauðsynlegum tíma og orku í störf fyrir hönd Ríkisútvarpsins samhliða lögmannsstörfunum. Á þessum tímamótum tel ég því skynsamlegt að annar taki við verkefninu og fylgi því úr hlaði,“ sagði hann þá.
Tímasetningin var þó þannig að umræðan um Ríkisútvarpið og fjármögnun þess var í hámæli. Morgunblaðið greindi frá því að hann hefði hætt af því að hann komst að þeirri niðurstöðu að hann nyti ekki lengur nægjanlegs stuðnings innan Sjálfstæðisflokksins til að fara þá leið í rekstri stofnunarinnar sem marka átti með nýjum útvarpsstjóra.