Laun forstjóra þeirra félaga sem skráð eru í Kauphöll Íslands hækkuðu umfram laun annarra á síðasta ári. Alls hækkuðu laun og hlunnindi forstjóranna að meðaltali um 13,3 prósent en meðalárshækkun launavísitölu Hagstofu Íslands var 7,2 prósent. Meðallaun forstjóra í Kauphöllinni voru 4,9 milljónir króna á árinu 2015 en hæst laun fékk Jón Sigurðsson, forstjóri Össurar, eða 19,2 milljónir króna á mánuði. Frá þessu er greint í Fréttablaðinu.
Þar segir einnig að þau laun sem hækki hlutfallslega mest milli ára séu laun Finns Oddssonar, forstjóra Nýherja. Laun hans hækkuðu í 3,1 milljón króna eða um 46 prósent frá árinu 2014. Heildarlaunagreiðslur Árna Odds Þórðarsonar, forstjóra Marel, hækkuðu um 34,3 prósent og voru 6,6 milljónir króna á mánuði og Björgólfur Jóhannsson, forstjóri Icelandair Group og formaður Samtaka atvinnulífsins, hækkaði um 17 prósent í 4,5 milljónir króna á mánuði.
Þá munu stjórnarlaun þeirra sem sitja í stjórnum skráðra fyrirtækja hækka að meðaltali um 8,6 prósent milli ára samkvæmt þeim tillögum sem liggja fyrir aðalfundum þeirra. Meðallaun stjórnarformanna félaganna verða 676 þúsund krónur á mánuði verði tillögurnar samþykktar.
Þorsteinn Víglundsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins, segir við Fréttablaðið að almennt sé talið svigrúm til 3-4 prósenta launahækkunar á ári og nýlega samþykktir kjarasamningar feli í sér launahækkanir sem séu umtalsvert umfram það.
Mikil reiði vegna hækkana í fyrra
Fyrir um ári síðan geisuðu fordæmalausar deilur á íslenskum vinnumarkaði. Hart var tekist á um launahækkanir launafólks og mikill rembihnútur var í deilunni. Það var því sem sprengju hefði verið kastað inn í deilurnar þegar nokkur þeirra félaga sem skráð eru á markað tilkynntu að aðalfundir þeirra hefðu samþykkt launahækkanir fyrir stjórnarmenn upp á tugi prósenta. Mesta reiði vakti þegar tilkynnt var að laun stjórnarmanna hjá HB Granda myndu hækka um 33 prósent á sama tíma og fiskverkafólkinu sem vinnur í frystihúsi félagsins stóð til boða 3,5 prósent launahækkun. Kjarninn ákvað í kjölfarið að kanna laun stjórnarmanna allra skráðra félaga á Íslandi, hversu mikið þau áttu að hækka samkvæmt tillögum sem lagðar voru fyrir aðalfundi þeirra og hversu háar arðgreiðslur voru greiddar til hluthafa félaganna.
Niðurstaðan var sú að fjögur af þeim fjórtán félögum sem skráð voru á íslenskan hlutabréfamarkað vorið 2015 hækkuðu laun stjórnarmanna sinna um tíu prósent eða meira á milli ára. Mest var hækkunin hjá VÍS þar sem stjórnarmenn hækkuðu um 75 prósent í launum. Sú hækkun var síðar dregin til baka. Hæst launaði stjórnarmennirnir eru hjá Marel en sá lægstlaunaði hjá Nýherja. Meðallaun almennra stjórnarmanna í skráðum íslenskum félögum eftir aðalfundi þeirra í fyrra voru, áður en að VÍS dró sínar hækkanir til baka, 279 þúsund krónur á mánuði, eða 21 þúsund krónum lægri en kröfur Starfsgreinasambands Íslands um lágmarkslaun fyrir fulla vinnu voru í þeim kjaradeilum sem þá stóðu yfir. Meðallaun stjórnarformanna skráðra félaga voru töluvert hærri, eða 563 þúsund krónur á mánuði.