Eitt erindi tengt kynferðisbroti innan æskulýðsstarfs kirkjunnar var tilkynnt til fagráðs þjóðkirkjunnar um kynferðisbrot árið 2014. Málinu var vísað til barnaverndarnefndar. Fagráðinu bárust einnig þrjú erindi 2014 þar sem óskað var eftir ráðgjöf, hvar eitt erindið var frá fyrra ári. Þetta kemur fram í árbók þjóðkirkjunnar fyrir árið 2014 til 2015.
Þar kemur einnig fram að eitt af erindunum var ósk um ráðgjöf vegna fyrirspurna fjölmiðla um mál sem starfsmaður kirkju hafði komið að sem stuðningsaðili þolenda. Í öðru tilviki óskaði biskup aðkomu fagráðs vegna erindis sem varðaði gamalt heimilisofbeldismál. Gerandi í því tilviki hafði gegnt ábyrgðarhlutverki innan kirkjunnar.
Þriðja tilvikið varðaði fyrirspurn um útlán kirkju og samstarf safnaðar við utanaðkomandi aðila um tónleikahald, eftir að upp kom að einn forsvarsmanna tónleikanna hefur verið dæmdur fyrir kynferðisbrot gegn barni.
Fimm tilkynningar um kynferðisbrot 2013
Fagráð þjóðkirkjunnar um meðferð kynferðisbrota var stofnað árið 1998. Næstu 11 ár eftir það bárust einungis þrjár tilkynningar. Þegar umræðan um kynferðisbrot innan kirkjunnar komst í hámæli 2010 komu tíu tilkynningar inn á borð fagráðsins. Tilkynnt var um fjóra starfsmenn kirkjunnar 2011 og tvo 2012.
Árið 2013 bárust fagráðinu fimm erindi sem vörðuðu kynferðisbrot. Einu málinu var vísað til barnaverndarnefndar, þremur var lokið á árinu og eitt var einn í vinnslu við lok ársins og er það málið sem vísað er í árið 2014. Tvö málanna voru ásökun um kynferðisbrot af hendi einstaklinga í þjónustu kirkjunnar. Þá barst einnig eitt erindi þar sem sóknarprestur og sóknarnefndarformaður báðu fagráðið um að fara yfir verklag sem þau höfðu viðhaft í kjölfar ábendingar um að dæmdur kynferðisbrotamaður starfaði innan safnaðarins. Þetta kemur fram í árbók kirkjunnar fyrir árin 2013 til 2014.
Ekki var hægt að nálgast upplýsingar fyrir árið 2015 fyrr en árbók kirkjunnar verður gefin út í haust. Elína Hrund Kristjánsdóttir sóknarprestur tók við sem formaður fagráðsins síðasta sumar af Gunnari Rúnari Matthíassyni.