Fimmtán af þeim sextán félögum sem eru skráð á aðallista Kauphallar Íslands
hafa skilað sínum uppgjörum fyrir árið 2015. Smásölurisinn Hagar er það eina
sem ekki hefur gert slíkt en uppgjörsár þess er annarskonar en hjá hinum
félögunum Ársuppgjör Haga er væntanlegt í apríl.
Alls högnuðust félögin fimmtán samanlagt um 66 milljarða króna í fyrra og greiddu eigendum sínum 23,5 milljarða króna í arð. Tryggingafélagið VÍS greiðir hæstu arðgreiðsluna, fimm milljarða króna. Flest félaganna skiluðu meiri hagnaði en þau gerðu árið 2014. Frá þessu er greint í Morgunblaðinu.
Þar kemur fram að hjá þeim tólf félögum sem skráð hafa verið í Kauphöllina undanfarin tvö ár, og hafa þegar skilað uppgjöri, hafi hagnaður þeirra hækkað um 47 prósent á tímabilinu, úr 35 milljörðum króna í 51,4 milljarða króna. Mestur hagnaður var hjá Icelandair, sem hefur grætt 14,3 milljarða króna á þessu tímabili.