Val almennings á sinni uppáhalds hugmynd í Gullegginu 2016 er hafið. Tíu viðskiptahugmyndir og fyrirtæki keppa til úrslita í þessari stærstu frumkvöðlakeppni landsins í ár. 100 manna rýnihópur skipaður konum til jafns við karla valdi úr um 200 umsóknum um þátttöku í kepnninni.
Hægt er að kynna sér verkefnin tíu og velja það sem þykir áhugaverðast hér á vef Kjarnans. Úrslitin í Gullegginu 2016 verða kynnt í Háskólanum í Reykjavík laugardaginn 12. mars. Kjarninn hýsir Val fólksins í annað sinn í ár en keppnin er haldin árlega á vegum Icelandic Startups í samstarfi við Háskólann í Reykjavík, Háskóla Íslands og Listaháskóla Íslands.
Teymin tíu sem valin voru til úrslita munu kynna hugmyndir sínar og markmið fyrir áhugasömum í Stúdentakjallaranum í kvöld. Öll teymin munu flytja lyfturæður en það eru örstuttar kynningar á verkefnum þeirra sem mætti flytja í stuttri lyftuferð, til dæmis. Keppt verður um titilinn „Lyfturæðari Gulleggsins 2016“ auk þess sem verðlaun verða veitt fyrir mesta eldmóðinn og bestu söguna.
Markmiðið með keppninni er að hjálpa einstaklingum að láta hugmyndir sínar verða að veruleika. Gulleggið hefur virkað sem stökkpallur fyrir mörg fyrirtæki sem hafa náð langt og stækkað eftir þátttöku. Má þar til dæmis nefna Meniga, Clara, Radiant Games og Pink Iceland.
Aldrei hefur hlutfall kvenna verið jafn hátt meðal umsókna í keppnina og í ár. 40 prósent hugmyndanna sem bárust Gullegginu í ár voru skipaðar kvenkyns leiðtoga. Í hópi tíu stigahæstu hugmyndanna eru 35 prósent konur. Aðeins eitt teymi er eingöngu skipað konum en fjögur eru eingöngu skipuð körlum. Helmingur teymanna eru hins vegar skipuð blöndu af konum og körlum.